Höfum ekki efni á ójöfnuði

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ráðherrar heilbrigðis- og félagsmála á Norðurlöndunum sitja nú árlegan fund sinn í Bergen í Noregi þar sem rætt er um velferðarmál í víðu samhengi. Í viðræðum ráðherranna í dag lagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra áherslu á að jöfnuður og félagslegt réttlæti væru grundvallarforsendur hvers samfélags sem tryggja vill almenna velferð.

„Efnahagslegur ójöfnuður leiðir til margþættra félagslegra og heilsufarslegra vandamála og veldur um leið miklum kostnaði fyrir samfélagið allt. Þetta vitum við og því er óhætt að segja að íslenskt samfélag hefur ekki efni á ójöfnuði,“ sagði Guðbjartur meðal annars í ávarpi sínu á fundinum.

Guðbjartur ræddi um hvernig íslensk stjórnvöld hefðu frá efnahagshruninu reynt eftir megni að verja velferðarkerfið og auka jöfnuð í samfélaginu. Enn fremur talaði hann sérstaklega um aðgerðir stjórnvalda til að vinna gegn atvinnuleysi og alvarlegum afleiðingum þess.

„Áhrif atvinnuleysis, sérstaklega þegar það er langvarandi, eru vel þekkt, jafnt fyrir einstaklingana sem í hlut eiga og samfélagið í heild. Félagsleg einangrun, fátækt, og örorka eru líklegar afleiðingar ef ekkert er að gert og í versta falli getur þetta jafnvel orðið hlutskipti margra kynslóða, líkt og dæmin sanna. Íslensk stjórnvöld hafa því lagt allt kapp á að sporna við atvinnuleysi með margvíslegum aðgerðum sem hafa skilað verulegum árangri,“ sagði Guðbjartur.

Ráðherrarnir töluðu allir um mikilvægi virkrar þátttöku fólks í samfélaginu og að tryggja þyrfti að tilteknir hópar með veika stöðu yrðu ekki útundan. Áfram verður fundað á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert