Hver vika aðgerðarleysis er dýr

Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu.
Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu. mbl.is/Ómar

Stjórn Samstöðu í Kraganum hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt nú þegar og að verðtrygging verði afnumin af lánum heimilanna. Stjórnin segir þetta eðlilega og réttmæta kröfu fyrir fjölskyldur landsins.

„Það er ólíðandi að brýnustu mál heimilanna séu sífellt kæfð í umræðum um jafnvel dægurþras eða pólitísk bitbein. Búið er að leggja fram leiðir til lausna hvað varðar þessi mál og krefst stjórn Samstöðu í Kraganum þess að þær lausnir verði skoðaðar af alvöru og valin verði leið til lausna í eitt skipti fyrir öll,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir auk þess að einnig sé mikilvægt „að fá úr því skorið sem fyrst hvort verðtrygging á neytendalánum sé ólögleg eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa haldið fram“.

Þar segir að fjölmörg heimili landsins séu tæknilega gjaldþrota og að þau sjái einungis fram á versnandi stöðu verði ekkert að gert.

„Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána sýnir ekki hvað það kostar samfélagið þegar heimilin hrökkva upp af hvert af öðru. Skýrslan sýnir heldur ekki hvað aðgerðarleysi stjórnvalda hefur kostað hingað til. Skýrslan er einungis enn einn illa skrifaði leikþátturinn sem hefur þann tilgang að sannfæra fólk um að það sé ekki þess virði að bjarga heimilum landsins. Stjórn Samstöðu í Kraganum telur aftur á móti að björgun þeirra sé algjört forgangsmál.“

Stjórnin segir að hver vika sem líði með áframhaldandi aðgerðarleysi sé samfélaginu allt of dýr og að það sé óásættanlegt að seinustu mánuðir kjörtímabilsins fari í að koma gæluverkefnum þingflokkanna gegnum þingið án þess að tekið sé á vanda fjölskyldna landsins.

„Ef ríkisstjórn Íslands treystir sér ekki til þess að taka á þessu mikilvægasta máli heimilanna þá krefst stjórn Samstöðu í Kraganum þess að ríkisstjórnin biðjist strax lausnar og boði til kosninga,“ segir í yfirlýsingunni.

Birgir Örn Guðjónsson, formaður Samstöðu í Kraganum.
Birgir Örn Guðjónsson, formaður Samstöðu í Kraganum.
Samstaða í Kraganum segir björgun heimila algjört forgangsmál.
Samstaða í Kraganum segir björgun heimila algjört forgangsmál.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert