Segir samgöngumál velta á veiðigjaldi

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Forsenda þess að hin góðu áform nái fram að ganga er sú að frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjald verði afgreitt eins og að er stefnt í þinginu. Á því veltur hið aukna tekjustreymi sem skapar viðbótarfjármagnið til þessara og fjölmargra annarra framkvæmda sem ráð er fyrir gert í fjárfestingaáætluninni sem ríkisstjórnin kynnti nýlega til sögunnar.“

Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, meðal annars á heimasíðu sinni í dag og nefnir til sögunnar í því sambandi ýmsar framkvæmdir í samgöngumálum, einkum á Vestfjörðum, sem ríkisstjórnin hyggist fara í fyrir fjármagn sem fást muni af auknum veiðigjöldum á útgerðarfyrirtæki.

„Svo undarlegt sem það kann að hljóma, eru öfl að verki á Alþingi Íslendinga, sem berjast gegn þessum áformum með oddi og egg,“ segir Ólína og bætir við að þar á meðal séu þingmenn úr Norðvesturkjördæmi. „Í þeim atgangi sem nú stendur yfir í þinginu, m.a. um veiðigjaldið, þar með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og breytta og bætta samgönguáætlun, kristallast munurinn á uppbyggingarstjórnmálum og niðurrifsstjórnmálum.“

Heimasíða Ólínu Þorvarðardóttur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert