Fagnar niðurstöðu héraðsdóms

mbl.is/Hjörtur

Forsætisráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ráðuneytið fagni niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Önnu Kristínar Ólafsdóttur gegn íslenska ríkinu enda sé þar hafnað kröfu hennar um skaðabætur en fallist á sömu fjárhæð miskabóta og henni hefði þegar verið boðin af ráðuneytinu í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.

Forsaga málsins er sú að Anna Kristín sem er stjórnsýslufræðingur sótti um starf skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu árið  2010. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skipaði hins vegar Arnar Þór Másson í starfið og fór málið fyrir kærunefnd jafnréttismála sem úrskurðaði að ráða hefði átt Önnu þar sem hún hefði verið jafnhæf hið minnsta og Arnar.

„Forsætisráðuneytið vekur athygli á því að í dóminum er hvorki lagt sjálfstætt né efnislegt mat á það hvort jafnréttislög hafi verið brotin við skipun í embættið. Niðurstaðan byggist alfarið á því að úrskurður kærunefndar jafnréttismála sé bindandi um þann þátt málsins, þar sem forsætisráðuneytið lét ekki á það reyna í sérstöku ógildingarmáli, þar sem áhersla var lögð á að ná sáttum í málinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá sé það jafnframt niðurstaða héraðsdóms að ekki verði fullyrt að Anna hafi átt að fá embættið auk þess sem skaðabótakröfu hennar hafi verið hafnað. Vitnað er til niðurstöðunnar að ekki verði fullyrt að Önnu hafi borið að fá starfið umfram þrjá aðra umsækjendur sem raðað hafi verið framar henni í hæfnismatinu og því hafi íslenska ríkið verið sýknað af skaðabótakröfu.

„Í samræmi við fyrri yfirlýsingar mínar og sáttavilja í þessu máli ítreka ég þá von, að með þessari niðurstöðu megi ljúka málinu, með sama hætti og ég lagði sjálf til þegar í upphafi,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í yfirlýsingunni í tilefni niðurstöðu héraðsdóms.

Frétt mbl.is: Bætur vegna yfirlýsingar forsætisráðherra

Frétt mbl.is: Anna Kristín fær hálfa milljón

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert