Minnsta atvinnuleysi í 4 ár


Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru í maí 2012 að jafnaði 186.500 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 170.600 starfandi og 15.900 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 83,1%, hlutfall starfandi 76% og atvinnuleysi var 8,5%.

Er þetta mun hærra hlutfall en samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar en skráð atvinnuleysi í maí 2012 var 5,6%, en að meðaltali voru 9.826 atvinnulausir í maí, samkvæmt frétt frá Vinnumálastofnun hinn 12. júní sl.

Atvinnuleysi hefur minnkað um 2,5 prósentustig frá því í maí 2011, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands en þá var atvinnuleysi 11%. Atvinnuleysi hefur ekki mælst minna í maímánuði frá því 2008 þegar það mældist 4,3%.

Atvinnuleysi mælist alltaf mest í maímánuði. Munar þar mestu að ungt fólk kemur inn á vinnumarkaðinn í auknum mæli í leit að starfi. Í maí 2012 var atvinnuleysi á meðal 16-24 ára 24,3% á meðan það var 4,8% hjá 25 ára og eldri.

„Atvinnulausir teljast þeir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, þ.e. höfðu hvorki atvinnu né voru í vinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan þriggja mánaða. Einstaklingar sem eru ekki í vinnu en eru í námi flokkast atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að ofan.

Starfandi fólki fjölgaði um 5.100 frá því í maí 2011. Hlutfall starfandi hækkaði um tvö prósentustig, úr 74% í 76%, segir í frétt Hagstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert