Vilja upplýsingar um leigusamninga

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Félag atvinnurekenda hefur óskað eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu varðandi   fjármögnunarleigusamninga Lýsingar.

„Félagi atvinnurekenda hafa borist fjöldamargar kvartanir vegna starfshátta fjármálafyrirtækisins Lýsingar í tengslum við eina af fjármögnunarleiðum þess, þ.e. fjármögnunarleigusamninga.

Í öllum tilfellum er umkvörtunarefnið það að Lýsing vilji ekki viðurkenna endurkauparétt viðskiptavina sinna þrátt fyrir að um hann hafi verið samið þó það hafi í mörgum tilfellum ekki verið gert skriflega. Komu þessi sinnaskipti upp eftir að deilur tóku að rísa um skilin á milli leigusamninga annars vegar og lánssamninga hins vegar. Eftir þann tíma tók Lýsing uppá því að þræta fyrir framangreinda skuldbindingu.

Ljóst er þeir aðilar sem sóttu fjármögnun til Lýsingar gerðu það með það fyrir sjónum að kaupréttur væri á samningsandlaginu. Þessi skilningur er staðfestur á heimasíðu Lýsingar þar sem slíkur réttur er staðfestur og í langri framkvæmd fyrirtækisins í þá veru. Þá styðst það við ákveðin eðlisrök að lántaki ætli sér ekki að greiða lánsandlagið að fullu með vöxtum og gjöldum án þess að eignast það,“ segir meðal annars í bréfi sem félagið hefur sent FME.

Félag atvinnurekenda hefur einnig útvegað fjölda vitnisburða frá viðskiptavinum Lýsingar til að sýna fram á ofangreint og þá óréttmætu viðskiptahætti sem Lýsing hefur beitt í  málum sem þessum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert