Sumar sóknir ekki lengur sjálfbærar

36 sóknir á suð-vesturlandi skulda rúmlega þremur milljörðum króna. Í þremur skuldugustu sóknunum nema skuldirnar um 297, 480 og 623 milljónum. Nefnd um framtíðarskipan sókna, prestakalla og prófastsdæma á suð-vesturhorninu telur sumar sóknir séu varla sjálfbærar lengur.

Biskup Íslands skipaði nefndina og fól henni að kanna hvort rétt væri að sameina sóknir á svæðinu.

Nefndin álítur að sameining sókna á svæðinu sé almennt ekki fýsileg við núverandi aðstæður. Nefndin vekur nefndin athygli á afar mismunandi fjárhagsstöðu sóknanna. Vandséð sé að sæmilega stæðar sóknir séu reiðubúnar að sameinast skuldsettum sóknum. Samtals nema skuldir allra 36 sóknanna í prófastsdæmunum þremur, sem um ræðir, rétt yfir þremur milljörðum króna. Fáeinar sóknir eru skuldlausar. 

„Sumar sóknir eru varla sjálfbærar lengur þar sem sóknargjöld standa ekki undir hefðbundnum rekstri og aðrar eru mjög skuldsettar vegna byggingaframkvæmda,“ segir í nefndarálitinu.

Nefndin telur brýnt að leitað verði heildarlausna varðandi fjárhag sókna enda sé slíkt forsenda frekari breytinga á skipan sókna. Slíkar tillögur séu þó ekki á verksviði nefndarinnar.

Nefndin leggur þó til að Kirkjuvogssókn í Kjalarnessprófastsdæmi verði sameinuð annarri sókn. Einnig leggur hún til að Fella- og Hólabrekkusóknir í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra verði sameinaðar.

„Enda þótt ekki séu lagðar til frekari sameiningar sókna, er niðurstaða nefndarinnar sú, að augljós ávinningur felist í aukinni samvinnu sókna. Má í því sambandi nefna samnýtingu starfsfólks t.d. organista og æskulýðsfulltrúa. Þá gætu svokölluð sóknasamlög verið hjálpleg til að standa straum af kostnaði við samnýtta þjónustu.“

Nefndin leggur til miklar breytingar á prestakallaskipan á svæðinu. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verða prestaköllin á svæðinu ellefu í stað 31.  Fjöldi presta verði hins vegar óbreyttur, en þeir eru 53.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert