Nóg af makríl að mati útgerðarstjóra

Makríll.
Makríll.

Útgerðarstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja tekur ekki undir með röddum sem telja að makrílveiði verði lítil í ár. Það sem hafi breyst sé að makríl megi finna á fleiri stöðum um landið. Eins hafi veiðarnar ekki tekið almennilega við sér í fyrra fyrr en um mánaðamót júní og júlí.

„Það er búið að verða víðar vart við makríl en áður. Hann finnst vestur af Látragrunni, út af Snæfellsnesi og nú erum við að veiða hann á Grindavíkurdýpi. Einnig má finna hann á fleiri stöðum,“ segir Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja.

Skipstjórarnir Gísli Runólfsson og Guðmundur Huginn Guðmundsson eru við makrílveiðar suðuraustur af landinu og suður af Reykjanesi. Þar hefur makrílveiði verið hvað best  hingað til. Þeir sögðu í samtali við Morgunblaðið í dag að minna væri af makríl í ár en undanfarin ár.

Eyþór tekur ekki undir með þeim. „Ég held að það sé nægur makríll en það sem hefur breyst er að menn eru að finna hann víðar um landið. Ég veit ekki hvort að hægt sé að segja að makríllinn hafi fært sig um set innan lögsögunnar. Makrílveiðar eru of ungar á Íslandi til þess að fullyrða um slíkt,“ segir Eyþór en makrílveiðar hófust á Íslandi fyrir 4-5 árum.

„Það sem hefur breyst er að menn eru farnir að leita hans á fleiri stöðum. Eins eru sífellt fleiri sem stunda þessar veiðar," segir Eyþór.

Hann telur að veiðarnar muni glæðast enn þegar líður á sumarið. ,,Veiðarnar gengu betur þegar komið var framyfir mánaðarmótin júní-júlí í fyrra. Ég hef því trú á því að veiðarnar í ár eigi eftir að vera sambærilegar fyrri árum," segir Eyþór að lokum.

Um 140-150 þúsund tonn voru veidd af makríl í fyrra. Heimild er fyrir svipuðu magni í ár.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert