Ummæli Damanaki koma á óvart

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það kemur mér nú á óvart, því að þau hafa nú yfirleitt sagt að þau haldi þessu aðskildu og að sjálfsögðu ætlumst við til þess,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, spurður út í viðbrögð sín við nýlegum ummælum Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, þess efnis að skiptar skoðanir séu um það í ráðherraráði ESB hvort hefja eigi viðræður um sjávarútvegsmál við Íslendinga í tengslum við aðildarumsókn Íslands, en þar væri makríldeilan í aðalhlutverki. Steingrímur segir það ekki hjálpa upp á að fara að hræra þessu saman, nógu erfið sé makríldeilan eins og hún er og sömuleiðis aðildarferlið.

„Við áttum hér óformlegan þríhliða fund í gær, eins og komið hefur fram í yfirlýsingu frá Noregi og ESB, þar sem farið var yfir stöðu málsins og niðurstaðan var í raun sú ein að gefast ekki upp og það er stefnt á það að menn hittist í byrjun september, en í aðalatriðum er óbreytt staða í málinu,“ segir Steingrímur og bætir við: „Deilan er erfið, það ber mikið á milli og ég held að það verði að trappa niður og hafa mjög hóflegar allar væntingar um að það verði auðvelt að ná þessu saman.“ Hann segir þó að það væri ofboðslega gott ef það tækist að leysa þetta mál en það verði að vera gert á einhverjum grunni sem Íslendingar geti sætt sig við og þar sem ríkir og réttmætir strandríkjahagsmunir landsins eru virtir.

Aðspurður hvort aðilar makríldeilunnar hafi færst nær hver öðrum eftir fundarhöld síðustu daga segir Steingrímur: „Ég held að það sé ekki hægt að segja að það hafi orðið nein mikil breyting, nema kannski að viðhorfin liggja nú skýrar fyrir.“ Hann segir það nýtt að ráðherrar og yfirmenn þessara mála komi saman og fari yfir málin, það hafi embættis- og samninganefndarmenn ríkjanna gert fram af þessu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert