Dómar gegn blaðakonum ekki óeðlilegir

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.

Ekkert var óeðlilegt við að íslenskir dómstólar dæmdu blaðakonunum Erlu Hlynsdóttur og Björk Eiðsdóttur í óhag, að mati Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns. Hann segir ákvæði prentlaga hafa verið skýr og því aðeins við löggjafann að sakast, ekki dómstólana.

Brynjar ritar pistill á vefsvæði sitt í tilefni af dómi Mannréttindadómstólsins sem komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn blaðakonunum. Hann segir að umræðu í fjölmiðlum hafa orðið undarlega og sýna vanþekkingu á stjórnskipulegri stöðu dómstóla og eftir hvaða reglum þeir verði að starfa.

„Þessar ágætu blaðakonur voru dæmdar til greiðslu skaðabóta á grundvelli 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt vegna blaðagreina sem þær skrifuðu í eigin nafni um nafngreinda menn. Samkvæmt því ákvæði var skýrt að blaðamenn bæru ábyrgð þótt ærumeiðandi ummæli væru höfð eftir öðrum. Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi 19. maí 1994. Þau lög eru ekki æðri öðrum lögum hér á landi.“ segir Brynjar og segir við löggjafann að sakast sem hélt áðurnefndu ákvæði prentlaga óbreyttu þrátt fyrir lögfestingu mannréttindasáttmálans.

Þá segir Brynjar að einkennandi sé fyrir fjölmiðla í seinni tíð að reyna grafa undan trausti og trúverðugleika dómstóla með ómálefnalegri gagnrýni og upphrópunum sem byggjast á misskilningi. „Það er ekki gæfuleg framtíðin þegar menn, sem eiga að semja fyrir okkur nýja stjórnarskrá, gaspra um að rétt sé að reka dómara sem gerðir hafa verið afturreka með ranga dóma af æðri erlendum dómstóli. Íslenskir dómstólar hafa hvorki verið gerðir afturreka með ranga dóma né er Mannréttindadómstóll Evrópu æðri Hæstarétti Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert