Mikill skortur á iðnaðarfólki á Austurlandi

Olíuvinnsla gæti hafist á Drekasvæðinu undir lok næsta áratugar ef …
Olíuvinnsla gæti hafist á Drekasvæðinu undir lok næsta áratugar ef allt gengur upp.

„Við gætum bætt við hundrað innlendum starfsmönnum. Við þurftum til dæmis að ráða að stórum hluta erlenda starfsmenn í verkefni hjá Alcoa við viðhald og uppbyggingu kera sem skapar 60 störf. Mikill fjöldi iðnaðarmanna flutti af landi brott eftir efnahagshrunið. Margir þeirra hefðu getað fengið tækifæri hér.“

Þetta segir Sigurjón Baldursson, starfsmannastjóri Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar, um stöðuna. Hægt sé að skapa hundruð starfa. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist Magnús Helgason, framkvæmdastjóri Launafls á Reyðarfirði, sammála Sigurjóni.

„Það vantar iðnaðarmenn, einkum rafiðnaðarmenn og vélvirkja. Það er búið að þurrausa markaðinn hér á Austurlandi. Þeir sem eru lærðir í þessum greinum hafa nóg að gera. Eftirspurnin er meiri en framboðið. Það væri leikur einn að bæta við 15 manns hjá okkur til að byrja með. Horfurnar eru góðar og launin sanngjörn og samkeppnishæf við það sem gengur og gerist í Reykjavík.“

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir Austfirðinga binda vonir við að fyrirhuguð olíuleit og hugsanlegar tilraunaboranir auki fjölbreytni í atvinnulífi landshlutans. Ef vel gengur gætu boranir hafist innan áratugar en þær kosta milljarðatugi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert