Stálu söfnunarbauk úr Árbæjarkirkju

mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú tveggja karlmanna sem stálu söfnunarbauk úr Árbæjarkirkju um áttaleytið í kvöld. Samkoma var í kirkjunni að sögn lögreglu og húsið því opið.

Drengir sáu til tveggja ungra manna fara inn í kirkjuna og hverfa á brott með samskotabaukinn, sem var rétt innan við anddyri kirkjunnar. Lögreglan var fljót á vettvang og leitaði í hverfinu en leitin bar ekki árangur og ganga þjófarnir því enn lausir.

Ekki liggur fyrir hversu mikið fé var í bauknum.  „Þetta er hálf nöturlegt,“ sagði varðstjóri hjá lögreglunni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert