Ættjarðarástin sveif yfir vötnum

Forseti Íslands var settur í embætti í fimmta skipti í dag. Töluverður fjöldi safnaðist saman fyrir framan Alþingishúsið af því tilefni. Athöfnin var mjög hátíðleg og ættjarðarást sveif yfir vötnum. Í aðdraganda athafnarinnar lék Lúðrasveit Reykjavíkur ættjarðarlög áður en forseti og aðrir gestir gengu inn í Dómkirkjuna og tóku þátt í helgistund í umsjá biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur.

Þegar helgistund lauk var haldið í Alþingishúsið þar sem forseti Hæstaréttar lýsti forsetakjöri. Í kjölfarið skrifaði Ólafur Ragnar undir drengskaparheit að stjórnarskránni áður en hann hélt út á svalir Alþingishússins ásamt eiginkonu sinni og minntist fósturjarðarinnar með ferföldu húrrahrópi. Viðstaddir innan og utandyra tóku vel undir.

Athöfninni í Alþingishúsinu lauk með því að Dómkórinn undir stjórn Kára Þormars söng þjóðsönginn. Athygli vakti að Dorrit Moussaieff tók undir rétt eins og margir aðrir gestir.  

Áhorfendur á Austurvelli voru flestir sammála um að hátíðin væri einstaklega hátíðleg og vildu litlu breyta í framkvæmd hennar. „Ég er að koma sérstaklega til að fylgjast með. Það hef ég oft gert áður. Þetta er virkilega hátíðleg athöfn, bæði falleg og þjóðleg,“sagði Börkur Karlsson og sagði athöfnin góða eins og hún er. „Hún á að vera látlaus en hátíðleg. Það á einmitt að spila ættjarðarlög eins og gert er.“

Helga Helgadóttir fylgdist með athöfninni frá upphafi til enda. „Ég hef fylgst með athöfninni af og til í gegnum tíðina og ákvað að láta sjá mig núna. Við Íslendingar gerum þessari athöfn góð skil. Mér fannst lögreglan standa sig mjög vel hérna í dag. Fólk hefði mátt klappa meira fyrir henni. Athöfnin var virðuleg og það var gaman að heyra í nýja biskupnum, hún hélt mjög góða ræðu. Ég er mjög ánægð með að það sé Ólafur Ragnar sem er hér í dag.“

„Ég kom sérstaklega hér til að fylgjast með, er að sjá slíka athöfn í fyrsta skipti núna. Mér langaði að sjá hvernig þetta færi fram því þetta er náttúrulega söguleg stund. Ég ólst nú upp í sama húsi og forsetinn, ég hef hinsvegar aldrei kosið hann. Enginn forsetaframbjóðandi sem ég hef kosið hefur komist að. Ólafur kemur nú samt alltaf vel fyrir. Annars fannst mér þetta fara mjög vel fram í alla staði fyrir utan einstaka ólátabelgi sem voru með hróp og köll,“ sagði Brynjólfur Samúelsson á Austurvelli í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert