Erill í Eyjum

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur hafði í nógu að snúast við að flytja …
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur hafði í nógu að snúast við að flytja fólk til Eyja. Lögreglan tekur fram að meirihluti hátíðargesta séu til fyrirmyndar. AFP

Erill hefur verið hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í dag en flest málin sem hún hefur sinnt tengjast ölvuðum gestum og hafa nokkrir þeirra þurft að gista í fangaklefa. Einnig hafa nokkur fíkniefnamál komið upp. Lögreglan tekur þó fram að langflestir gestir á þjóðhátíð séu til fyrirmyndar.

Lögreglunni í Eyjum barst liðstyrkur fyrir hátíðina, eða á annan tug lögreglumanna, og er því öflug löggæsla á svæðinu. Líkt og fram hefur komið var búið að setja upp 11 eftirlitsvélar í Herjólfsdal sem auka eiga öryggi þjóðhátíðargesta.

Ein nauðgunarkæra hefur borist til lögreglunnar sem segir að málið sé í rannsókn.

Veðrið í Eyjum hefur verið gott í dag. Í kvöld fara fram tónleikar í dalnum og þegar klukkan slær miðnætti hefst flugeldasýning, sem hefur verið fastur liður á hátíðinni um árabil.

Flest fíkniefnamálin sem komið hafa upp tengjast neyslu á hvítum efnum, s.s. amfetamíni og kókaíni.

Þá segir lögreglan að lítið hafi verið um pústra í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert