„Snögg en skynsamleg u-beygja“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

„Það eru (því miður) nokkur nýmæli að talsmenn stjórnarflokkanna geri hugmyndir framsóknarmanna að sínum [...] Því ber að fagna að Stefán skuli gera þessa tillögu mína að sinni og vonandi nær hann að snúa fleirum á okkar band í þessu efni,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sína um nýjasta bloggpistil Stefáns Ólafssonar prófessors.

Sigmundur Davíð segir Stefán taka „snögga en skynsamlega u-beygju frá Evrópusambands-einstefnu Samfylkingarinnar“ þegar hann setji fram þá „nýstárlegu“ hugmynd að líklega sé best í stöðunni að setja ESB umsóknina á ís, fresta viðræðum og jafnvel halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli þeim áfram. „Nú hentar það Stefáni e.t.v. ekki að viðurkenna að hann hafi tekið upp tillögu framsóknarmanns, en staðreyndin er sú að þessa hugmynd um frestun ESB viðræðna og þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið setti ég fyrst fram í grein í Morgunblaðinu fyrir ári síðan, í ágúst 2011.“

Sigmundur Davíð segir Stefán tæpast hafa gleymt þessari grein enda hafi hún valdið talsverðu fjaðrafoki á meðal stuðningsmanna Evrópusambandsviðræðnanna og var henni m.a. kennt um að fjórir áhugamenn um ESB-aðild hefðu sagt sig úr Framsóknarflokknum skömmu síðar.

„En hafi Stefán misst af þessu má benda honum á að þetta ár sem liðið er hef ég (ásamt fleiri framsóknarmönnum) margoft ítrekað þessa skoðun mína, að réttast sé að fresta Evrópusambandsviðræðunum og leyfa þjóðinni að ákveða framhaldið, bæði í þingræðum, viðtölum og greinum.

Þess er einnig skammt að minnast að á síðasta landsfundi sínum gerði Sjálfstæðisflokkurinn þessa hugmynd að yfirlýstri stefnu sinni í Evrópumálum. Myndi Samfylkingin undir forystu Stefáns Ólafssonar fara sömu leið, fresta ESB viðræðunum, stöðva aðlögunarferlið og leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hver veit. Hugsanlega komumst við Stefán að því hvort þingmenn Samfylkingarinnar eru tilbúnir að fylgja skynseminni ef greidd verða atkvæði um frestun viðræðna þegar Alþingi hefur störf í haust,“ skrifar Sigmundur Davíð að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert