Óvissa um starfið í Reykjadal

Í Reykjadal er boðið upp á starf fyrir fötluð börn …
Í Reykjadal er boðið upp á starf fyrir fötluð börn og ungmenni. Reksturinn er þungur enda er kostnaður við umönnun mikill. mbl.is/Ernir

Rekstur Reykjadals hefur þyngst verulega undanfarin ár. Nú er svo komið að óvissa ríkir um áframhaldandi starf en Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur rekið sumar- og vetrardvöl fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal í tugi ára og á næsta ári mun Reykjadalur eiga 50 ára afmæli.

Framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra segir að stjórn félagsins muni leita allra leiða til að viðhalda starfinu. Það hafi mikla þýðingu fyrir börnin sem og fjölskyldur þeirra enda sé ekkert sambærilegt úrræði til staðar á landinu. Í Reykjadal fái allir umönnun við hæfi en það sé um leið afar kostnaðarsamt og framlög sveitarfélaganna dugi ekki til. Starfið muni þó halda áfram út árið þrátt fyrir hallarekstur en framhaldið sé óljóst.

Þurfa um 25 milljónir umfram framlög

„Við erum að keyra þetta á miklum halla og þetta félag þarf að afla töluvert mikilla peninga til þess að halda þessu gangandi umfram það sem við fáum frá ríki og sveitarfélögum. Ég er að tala um einhverjar 25 milljónir,“ segir Vilmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Reykjadalur er rekinn á framlagi frá sveitarfélögum annars vegar og svo gjaldi sem foreldrar greiða fyrir dvöl barna sinna. Þá hefur Reykjadalur notið góðs af söfnunarfé svo sem með árlegri sölu Kærleikskúlunnar. Lagt er upp með að foreldrarnir þurfi ekki að greiða meira en foreldrar ófatlaðra barna greiða fyrir sambærilega dvöl sinna barna í sumarbúðum. Þrátt fyrir það er Reykjadalur með fleira starfsfólk vegna þess að börn og ungmenni sem þar dvelja þurfa mikla umönnun.

„Krakkarnir í Reykjadal þurfa mikla umönnun, oft er einn starfsmaður á hvern sumardvalargest en stundum getur einn starfsmaður verið með tvo. Í sumum tilvikum þarf jafnvel fleiri en einn starfsmann á hvern gest,“ segir Vilmundur.

Fyrir rúmu ári var málaflokkur fatlaðra færður frá ríkinu til sveitarfélaga. Vilmundur segir að það hafi ekki auðveldað stöðuna. „Þetta er svolítið flókið núna því þessi málaflokkur var færður yfir til sveitarfélaganna nýlega og þau eru að fóta sig í þessu nýja hlutverki og eru mjög á bremsunni. Eðlilega vilja þau kannski ekki taka á sig auknar álögur og kostnað en svo er ríkið fegið að losna við pakkann,“ segir Vilmundur.

Vilmundur segir að flestir starfsmenn Reykjadals séu háskólanemar í heilbrigðis- og uppeldisgreinum. Þeir vinni mikið þrátt fyrir lág laun og séu krökkunum ómetanlegur stuðningur. Hann bendir á að árin 2010 og 2011 hafi starfsmenn Reykjadals staðið fyrir söfnun sem hafi reynst gríðarlega vel. Hins vegar sé ekki hægt að reiða sig endalaust á safnanir og velvild starfsmanna. Árið í ár hafi verið mjög þungt, þyngra en oft áður.

Trúir á farsæla lausn og vill ekki standa í hótunum

„Þetta er ekki ásættanlegt til lengdar og er bara orðið of mikið, við ráðum ekki við annað svona ár. En ég á ekki von á öðru en við verðum með helgardvalir til áramóta. Við höfum gert lítið af því að hóta og höfum ekki verið í þeim fasa að hér sé allt á vonarvöl. Okkur hefur hingað til ekki hugnast sú leið og vonumst til að geta fundið einhverjar leiðir til þess að halda þessari starfsemi áfram því það er full þörf fyrir hana,“ segir Vilmundur. Í Reykjadal upplifi krakkarnir það sem ófatlaðir krakkar og unglingar fái að gera. Þar sé tekið tillit til fötlunar hvers og eins og krakkarnir fái að njóta sín eins og fremst sé kostur. „Þessa þjónustu er enginn annar að veita,“ segir Vilmundur.

Í Reykjadal er tekið tillit til fötlunar hvers og krakkarnir …
Í Reykjadal er tekið tillit til fötlunar hvers og krakkarnir fá að njóta sín eins og fremst er kostur. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert