Strætó verður á þönum á menningarnótt

Strætó gengur ókeypis allan daginn á menningarnótt og eftir flugeldasýninguna …
Strætó gengur ókeypis allan daginn á menningarnótt og eftir flugeldasýninguna verða allir vagnar settir í að koma fólki heim í úthverfin. Mbl.is/HAG

Stór hluti miðborgar Reykjavíkur verður lokaður á laugardaginn, vegna bæði Reykjavíkurmaraþonsins og menningarnætur. Strætó gengur ókeypis allan daginn og er fólk hvatt til að nýta sér það og skilja bílinn eftir heima. Í fyrra voru eigendur tæplega 1.000 bíla sektaðir á menningarnótt, en 80.000 manns nýttu sér strætó.

Allir vagnar nýttir eftir flugeldasýninguna

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóða frítt í strætó allan daginn, en hafa skal í huga að þar sem margar götur í miðborginni verða lokaðar umferð verður akstursleiðum strætó breytt. Allan hátíðardaginn verður ekið að og frá Hlemmi og Gömlu Hringbrautinni gegnt BSÍ. Eftir kl. 22 verður hefðbundið leiðakerfi strætó auk þess gert óvirkt og allir vagnar settir í að ferja fólk úr miðborginni í úthverfin. Verður ekið eins lengi og þörf er talin á miðað við eftirspurn, að lokinni flugeldasýningu. 

Á menningarnótt 2011 ferðaðist metfjöldi með strætó, yfir 80.000 manns, en þá var einnig ókeypis. Aksturinn gekk vel bæði yfir daginn og einnig eftir flugeldasýninguna um kvöldið þótt þá hafi talsvert álag verið á kerfinu.

Ólöglega lagðir bílar til vandræða og hættu

Götulokanir í miðborginni eru í gildi frá klukkan 07:00 að morgni laugardagsins og fram yfir miðnætti, eða til kl. 01:00. Á meðfylgjandi korti má sjá hvaða götum miðborgarinnar verður lokað fyrir umferð á menningarnótt.

Þeim sem fara akandi í bæinn er ráðlegt að leggja bílnum þar sem eru stór og rúmgóð stæði, svo sem við skóla, stóra vinnustaði eða íþróttamannvirki. Auk þess verða bílastæðahús opin í Stjörnuporti, Vitatorgi og Höfðatorgi, til kl. 1:00. Bílastæðahúsið í Hörpu verður opið frá 15:00 til 22:00 og svo aftur frá 23:30 til 01:00.

Stöðumælaverðir og lögregla munu sekta þá sem leggja ólöglega á menningarnótt. Er það m.a. gert vegna þess að oft hefur ófremdarástand myndast í miðborginni þar sem bílum er lagt upp á gangstéttir og umferðareyjar, svo vandræði skapast fyrir gangandi vegfarendur sem og fólk í hjólastólum eða með barnavagna. Auk þess geta bílar sem er ólöglega lagt verið hindrun fyrir sjúkra- og slökkviliðsbíla í forgangsakstri. Á menningarnótt í fyrra fengu eigendur tæplega 1.000 bíla sekt fyrir að leggja ólöglega og þurftu að greiða 5.000 kr vegna stöðubrots. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með aukna viðveru á samfélagsmiðlum meðan dagskrá menningarnætur stendur og mun m.a. gefa auknar upplýsingar um stöðu umferðarmála á Facebook og Twitter. Nánari upplýsingar um bílastæði, götulokanir, strætó o.fl. má finna hér á síðu menningarnætur. 

Appelsínugulu göturnar á þessu korti tilheyra hátíðarsvæði menningarnætur og verða …
Appelsínugulu göturnar á þessu korti tilheyra hátíðarsvæði menningarnætur og verða lokaðar frá 07:00 til 01:00. Sjá einnig hér: http://www.menningarnott.is/upplysingar.php Kort/Reykjavíkurborg
Margir í Austurstræti á Menningarnótt 2011.
Margir í Austurstræti á Menningarnótt 2011. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert