Sóttu í eignir BM Vallár

Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár, segist hafa legið yfir gögnum í máli BM Vallár og Arion banka í tvö ár. Þótt hann þurfi að fá betri gögn og upplýsingar um hvernig staðið var að málum við yfirtöku á BM Vallá er hann viss um að byggja mál sitt á sterkum lagalegum grunni.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Víglundar, segir að eigendur BM Vallár hafi fengið aðra meðferð en mörg önnur fyrirtæki sem hafi verið í svipaðri stöðu og að eigendur fyrirtækisins hafi lagt fram trúverðuga áætlun um hvernig mætti endurreisa það. Hann segir að skýringar á því hvernig unnið var í málum BM Vallár hafi að hluta til verið að finna í góðu eignasafni fyrirtækisins sem auðvelt hefði verið að brjóta upp og selja að nýju. Víglundur tekur undir að fyrirtækið hafi átt margar góðar eignir og bætir við að margar hverjar hafi farið illa forgörðum hjá nýjum eigendum.

Ljóst hafi verið að Arion banki hafi staðið verr gagnvart gamla bankanum en hinir bankarnir og hafi þurft að fá sem mest út úr lánasafni sínu og Sigurður segir að ein leiðin hafi verið að ná fjármunum út úr þeim fyrirtækjum sem bankinn gæti komist yfir.

Því hafi eigendur BM Vallár ekki fengið rétta málsmeðferð með því að fá ekki notið laga 107 frá árinu 2009 sem ná utan um skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja og að lokum verið knúnir í gjaldþrot.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert