Víglundur óskar eftir rannsókn FME

Víglundur Þorsteinsson.
Víglundur Þorsteinsson. Morgunblaðið/Kristinn

Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi eigandi BM Vallár, hefur ritað forstjóra Fjármálaeftirlitsins bréf, en í því óskar hann eftir því að stofnunin rannsaki hvort stjórnvöld hafi farið eftir úrskurðum þess sem byggðir voru á neyðarlögunum.

Víglundur hélt blaðamannafund í vikunni þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld og Arion banka harðlega. Í bréfinu til FME segir hann að í kjölfarið hafi fjöldi fólks haft samband við sig sem eigi um sárt að binda vegna viðskipta sinna við Arion banka og væntanlega fleiri fjármálastofnana.

Í bréfi Víglundar til FME er vísað til úrskurða stofnunarinnar frá október 2008 sem byggðir voru á neyðarlögunum. „Eins og ég best veit hafa þeir úrskurðir aldrei verið afturkallaðir af Fjármálaeftirlitinu og eru því samkvæmt stjórnsýslulögum enn hinn lögmæti grundvöllur um stofnun krafna nýja bankans.

Ef sá skilningur minn er réttur sýnist mér að sú vinna sem fram hefur farið í Arion banka og skilanefnd Kaupþings sem skipuð var af Fjármálaeftirlitinu, kunni af hafa farið gegn þessum úrskurði FME með afdrifaríkum hætti fyrir mig marga viðskiptavini bankans þ.m.t. mig og félag mitt B.M. VALLÁ hf.“

Í bréfinu fer Víglundur fram á að FME hefji formlega rannsókn á þessum málum og gangi ótvírætt úr skugga um það hvort unnið hefur verið gegn þessum úrskurðum og lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert