Ummæli norska ráðherrans vekja undrun

Lisbeth-Berg Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs
Lisbeth-Berg Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs SCANPIX/af vef norska sjávarútvegsráðuneytisins

Sendinefnd Íslands á makrílfundinum í London í gær kom með þá tillögu á fundinum að veiðin yrði minnkuð um 20% hið minnsta næsta ár. Ummæli sjávarútvegsráðherra Noregs eftir fundinn vekja undrun Steingríms J. Sigfússonar. Þetta er meðal þess sem kemur fram á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Þar er haft eftir Steingrími J.: „Í framhaldi af fundi strandríkja sem komu að viðræðum um skiptingu makrílstofnsins í London sl. mánudag er ástæða til að fara yfir málið og skýra sjónarmið Íslands.

Því miður skilaði fundurinn litlu sem engu til lausnar deilunni en þar er ekki við Ísland að sakast umfram aðra, nema síður sé. Ísland kom til fundarins reiðubúið til að sýna sveigjanleika og þoka málinu áfram.

Eins og áður hefur komið fram er Ísland tilbúið að ræða lausn málsins, að sínu leyti á þeim nótum að í skiptum fyrir eitthvað lægra hlutfall af heildarveiði en nú er komi aðgangur að lögsögum annarra ríkja, en ávinningur sé af því að heildarsamkomulag náist. Með því verður hægt að færa veiðina niður í átt að ráðgjöf og tryggja sjálfbæra nýtingu og vernd stofnsins til frambúðar.

Ísland hefur einnig lagt áherslu á mikilvægi þess að efla rannsóknir og m.a. hvatt Evrópusambandið til þátttöku í sameiginlegum rannsóknum Íslands, Færeyja og Noregs.

Loks höfum við ítrekað lagt til að á meðan ekki næst samkomulag um skiptingu, þá lækki ríkin veiðina um tiltekinn hluta. Við höfum jafnvel sagt að við værum tilbúin til þátttöku í slíku ef stærstu aðilarnir, ESB og Noregur, gerðu slíkt hið sama þó ekki yrðu allir með.

Sem góðan áfanga í þeim efnum nefndum við í London að veiðin yrði lækkuð um 20% hið minnsta næsta ár. Sérstaka undrun vekja ummæli og viðhorf sjávarútvegsráðherra Noregs eftir fundinn. Lisbeth-Berg Hansen fellur enn í þá gryfju að skella allri skuldinni á Ísland og Færeyjar þegar veruleikinn er sá að ein helsta ástæða þess að fundurinn í London skilaði ekki árangri var einstrengingsleg afstaða Noregs,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, á vef ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert