Gunnar Andersen neitar sök

Gunnar Andersen í héraðsdómi í dag.
Gunnar Andersen í héraðsdómi í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, neitaði í morgun sök en hann og starfsmaður Landsbankans eru ákærðir fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd, og Gunnar er auk þess ákærður fyrir brot í opinberu starfi. Starfsmaðurinn neitaði einnig sök við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Gunnar fékk, samkvæmt ákæruskjali, starfsmann Landsbankans til að afla gagna úr bókhaldi bankans um viðskipti Bogamannsins ehf. sem hann afhenti þriðja manni en um var að ræða skjal sem sýndi að Landsbanki Íslands hf. greiddi kr. 32.700.000 inn á bankareikning Bogamannsins ehf. 13. júní 2003.

Umræddum upplýsingum, sem bundnar voru þagnarskyldu, var svo komið til fréttastjóra DV sem nýtti upplýsingarnar við ritun fréttar um viðskiptin sem birtist í DV 29. febrúar 2012.

Þetta framkvæmdi Gunnar, samkvæmt ákæru, í því skyni að skapa umræðu um viðskipti félagsins og eiganda þess, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, við Landsbanka Íslands hf., sem hann taldi óeðlileg, og vegna þess að hann taldi Guðlaug Þór hafa í opinberri umræðu reynt að gera hann sem forstjóra Fjármáleftirlitsins tortryggilegan, sem og stofnunina.

Verjandi Gunnars lagði einnig fram frávísunarkröfu sem byggð er á því að Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sé vanhæfur til að sækja málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert