Íslendingar borða innfluttan fisk

Árni Elvar Eyjólfsson fisksali í Kolaportinu á erfitt með að …
Árni Elvar Eyjólfsson fisksali í Kolaportinu á erfitt með að verða sér úti um frosna ýsu og þorsk. Mbl.is/Sigurður Bogi

Íslendingar eru í auknum mæli farnir að borða bæði innfluttan fisk og innfluttan humar. Þetta segir fisksali í Kolaportinu sem lendir iðulega í vandræðum með að verða sér úti um frosna ýsu og segir stefna í að humarskortur verði um jólin, þar sem allt sé flutt úr landi.

Merkingarnar samræmast ekki ESB-stöðlum

Árni Elvar Eyjólfsson selur frosið sjávarfang í Kolaportinu en hann segir gríðarlega erfitt þessa dagana að verða sér úti um frosinn fisk. Engan sjófrystan fisk sé að fá því togararnir hafi verið á makríl. Hann hafði samband við fiskvinnslu úti á landi sem hann hefur áður keypt fisk frá þegar annað bregst og fékk þau svör að jú, þar væri vissulega frosna ýsu að fá en hún mætti ekki fara í endursölu á innanlands. 

Ástæðan er sú að ýsan er pökkuð fyrir Ameríkumarkað, og merkingarnar á umbúðunum samræmast ekki reglum Evrópusambandsins. Innihaldið er þó það sama, íslenskur fiskur, og Árni segir það skjóta skökku við að ekki megi dreifa honum innanlands þegar eftirspurn sé eftir því. Ekki er því útlit fyrir að frosin ýsa fáist í básnum hjá Árna Elvari, en það er ekki eina tegundin sem skortur er á.

Enginn humar um jólin?

„Það verður enginn humar fyrir Íslendinga um jólin, þetta er allt orðið flutt ferskt út, heill upp úr sjó. Það fæst orðið svo gott verð bæði í Evrópu og á Bandaríkjamarkaði fyrir þannig humar og það er farið að bera á skorti, sérstaklega á veitingahúsum. Það er endalaust hringt frá veitingahúsum í leit að humri. Það var aðeins til í upphafi sumars, en þá var líka fluttur inn til landsins hellingur af skoskum humri, sem er reyndar ekki boði lengur núna.“

Árni bendir á að það séu fyrst og fremst þeir sem dreifi frosnum fiski, bæði ýsu og þorski, sem séu í vanda. Fiskbúðirnar geti áfram keypt ferskan fisk og selt en hann sé líka dýrari. Árni Elvar deyr þó ekki ráðalaus.

Eldisfiskur frá Asíu selst vel

„Ég er að flytja inn fisk sem er miklu betri heldur en bæði ýsa og þorskur. Hann heitir pangasius og það er að verða alveg ótrúleg sala í þessum fiski til Íslendinga. Hann er líka svo ódýr.“

Pangasius er eldisfiskur frá Asíu sem hefur í auknum mæli verið fluttur inn á Evrópumarkað undanfarin ár til að anna eftirspurn eftir fiski, og verður sífellt vinsælli. Þrátt fyrir lágt verð segir Árni að pangasius sé prýðisgóður fiskur og leggist vel í Íslendinga sem ekki geta fengið ýsu eða þorsk. „Það kemur bara fiskur í fisks stað."

Pangasius er eldishvítfiskur frá Asíu sem fluttur er í auknum …
Pangasius er eldishvítfiskur frá Asíu sem fluttur er í auknum mæli til Evrópu til að svara eftirspurn eftir fiski.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert