Styrkja björgunarsveit eftir leit að konu í Eldgjá

mbl.is/Kristján

Kynnisferðir og Reykjavík Excursions afhentu björgunarsveitinni Stjörnunni í Skaftártungu nýverið styrk að upphæð 300 þúsund krónur til stuðnings byggingu húsnæðis undir starfsemi sveitarinnar.

Með fjárhagsstuðningnum vildu gefendur sýna björgunarsveitinni þakklæti fyrir umfangsmikla þátttöku í leit nýverið að farþega í rútu Kynnisferða við Eldgjá í Skaftártungu, sem síðar kom á daginn að reyndist óþörf, segir í tilkynningu.

„Mannleg mistök urðu til þess að umfangsmikil leit var gerð að erlendri konu sem var farþegi í rútu Kynnisferða við Eldgjá í Skaftártungu 26. ágúst. Leitinni var hætt þegar í ljós kom að konan var ekki týnd. Í ljós kom að konan hafði skipt um föt og bar bílstjórinn ekki á kennsl á hana aftur þegar talið var á ný í rútuna. Alls tóku um fimmtíu manns þátt í leitinni og báru björgunarsveitarmenn Stjörnunnar hita og þunga af leitinni,“ segir í tilkynningu.

Auk Stjörnunnar tóku fjölmargar björgunarsveitir þátt í leitinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert