Étin lifandi af tófum

Eitt lambanna sem étið var lifandi af tófum.
Eitt lambanna sem étið var lifandi af tófum. mbl.is/Sæmundur Sæmundsson

Lömb, sem föst voru í snjó í Hamraheiði neðan og sunnan við Mælifellshnjúk í Skagafirði, voru étin lifandi af tófum. Lömbin gátu sig hvergi hreyft, tófan át haus af lambinu og í einu tilfelli var lærið étið af lambi. Bændur og björgunarsveitarmenn leituðu fjár í Mælifellsdal í allan dag.

Bændur og björgunarsveitarmenn leituðu fjár í Mælifellsdal frá því í dögun í morgun og fram í myrkur og var farið á vélsleðum og fjórhjólum. „Við vorum að hætta að leita núna og það gekk vel. Við náðum um 70 kindum í dag,“ sagði Guðmundur Hjálmarsson, einn leitarmannanna, í samtali við mbl.is um hálftíuleytið í kvöld.

Veikburða og kalið á fótum

Hann segir að sumt féð hafi verið illa á sig komið. „Það sem var veikburða tók ég á sleðann, það var kalið á fótum og átti erfitt með að hreyfa sig. Við selfluttum fé á fjórhjólum, nú er margt af því komið niður undir bæi og sumt komið heim í örugga höfn.“

Hann segir aðkomuna víða hafa verið skelfilega. Blóði drifinn snjór og hálfétin lambshræ sem augljóslega höfðu verið étin lifandi. „Ég kom að átta rollum, sem voru fastar í snjó þannig að einungis hausarnir stóðu upp úr. Þarna voru tvær tófur hlaupandi í kringum þær, nartandi og bítandi í hausana og hrafninn sveimaði í kring,“ segir Guðmundur. „Það er auðvitað alveg með ólíkindum að einhverjum skyldi detta í hug að friða tófuna, það er hryllilegt hvað það er orðið mikið af tófu víða hér í Skagafirði.“ 

Guðmundur segir að það fé sem slapp við ágang tófunnar hafi nánast allt fundist á lífi.

Leit verður ekki haldið áfram á morgun

Hann segir að ekki verði haldið áfram að leita á morgun. „Við erum búin að skanna allt svæðið og síðan verður farið í göngur á laugardagsmorguninn. Þá verður bæði farið ríðandi, gangandi og á sleðum og reynt að ná öllu sem sést til. Við fáum þá göngufólk til liðs við okkur og verðum með bíla og kerrur niðri á vegi í Mælifellsdalnum og reynum að koma fénu í kerrur.“

Frétt mbl.is: Tófan ræðst á lömbin

Guðmundur Hjálmarsson flutti fé á snjósleða sínum í dag.
Guðmundur Hjálmarsson flutti fé á snjósleða sínum í dag. mbl.is/Sæmundur Sæmundsson
Eitt lambanna sem étið var lifandi af tófum.
Eitt lambanna sem étið var lifandi af tófum. mbl.is/Sæmundur Sæmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert