13 sagt upp í Straumsvík

Í steypuskála álversins í Straumsvík.
Í steypuskála álversins í Straumsvík. Morgunblaðið/Golli

Álver Alcan í Straumsvík hefur sagt upp 13 starfsmönnum. Ástæðan er taprekstur vegna lækkandi álverðs. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Alcan, segir að fyrirtækið hafi tapað 25 milljónum á dag í ágúst. Hann segir að fyrirtækið þurfi að spara og stöðugildum verði fækkað um 27 með uppsögnum og með því að ráða ekki í stöður sem losna.

Verð á áli hefur sveiflast talsvert á þessu ári, en þróunin hefur verið niður á við. Auk þess hefur verð á rafskautum hækkað. Alcan hagnaðist um rúmlega 4 milljarða á síðasta ári, en það sem af er ári hefur fyrirtækið verið rekið með 500 milljóna tapi.

Ólafur Teitur segir framtíðina óljósa. Það sé óvissa í Evrópu og Ameríku og hagvöxtur í Kína sé að minnka sem hafi mjög mikil áhrif verð á hrávörum. Alcan verði því að spara í rekstri eins og mörg önnur fyrirtæki hér á landi og erlendis hafi þurft að gera frá hruni. Hann bendir á að Alcan hafi ekkert fækkað stöðugildum frá hruni fyrr en nú.

480 stöðugildi eru hjá Alcan, en ákveðið hefur verið að fækka þeim um 27, sem er 5% fækkun. Starfsmönnum fækkar hins vegar um 3% með þessum aðgerðum.

Ólafur Teitur segir að Alcan hafi ekki gripið til hópuppsagna í yfir 20 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert