Afstaða Svandísar óbreytt frá 2009

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Ómar Óskarsson

„Umræðan [um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu] verður að vera óhikuð og opin gagnvart lýðræðislegri skyldu okkar hér, og það er óbreytt frá því sem var 2009. Lýðræðiskrafan er númer eitt, tvö og þrjú í þessu efni, að íslenskur almenningur fái að taka afstöðu á grundvelli upplýsinga og umræðu.“ Þetta sagði umhverfisráðherra á Alþingi í dag.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra út í ummæli hennar frá því í ágúst þegar hún sagðist vilja að kosið yrði næsta vor um þá þætti í aðildarviðræðum við ESB sem þá lægju fyrir. Þjóðin þyrfti að fá tækifæri til að koma að málinu á þessu kjörtímabili.

Svandís sagðist hafa greitt atkvæði með umsókninni í maí 2009 vegna þess að hún taldi tíma kominn til þess að þjóðin fengi að taka afstöðu til þess. Hún hefði hins vegar átt von á að umræðan yrði dýpri og skynsamlegri þegar á liði ferlið. Hún hefði því miður orðið svarthvítari, átakakenndari og einkennst af upphrópunum. Kjörnir fulltrúar hefðu þar ekki verið til fyrirmyndar.

Hún sagði þá skoðun sína óbreytta frá 2009 að íslenskur almenningur ætti að fá að taka afstöðu á grundvelli upplýsinga og umræðu.

Ásmundur Einar sagðist telja Íslendinga fyllilega upplýsta um það hvað væri að gerast í Evrópusambandinu og spurði á ný út í ummæli Svandísar um að hún vildi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en kjörtímabilinu lyki.

Svandís svaraði því til, að það væru hópar í landinu sem væru sannfærðir um hvaða niðurstaða ætti að fást í þjóðaratkvæðagreiðslunni en það væri stór hópur í öllum flokkum sem vildi upplýsingarnar. Það væri skylda þingmanna að þær lægju fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert