Undirskriftarsöfnun fyrir Betra lífi áfengissjúklinga

Undirskriftarsöfnun hjá SÁÁ hófst nú síðdegis. Hún er fyrir stuðningi við að lagt verði fram frumvarp til laga um sérstakt 10% áfengisgjald sem renni til þolenda áfengis- og vímuefnavandans. Hugmyndin er sú að fjármununum yrði varið til að byggja upp félagslega þjónustu, sem sveitarfélögin hafa ekki haft bolmagn til að sinna. 

Að sögn SÁÁ eru sveitarfélögin of mörg, ólík, fámenn og févana til að byggja upp félagslega þjónustu fyrir þolendur áfengis- og vímuefnavandans, meta þörf einstakra sjúklingahópa og síðan meðferðina að sérstökum þörfum ólíkra hópa. 

Bent er á að ríkissjóður leggur áfengisgjald á áfengi sem nemur 11.200 milljónum á þessu ári. Þetta þýði að allra veikasta fólkið á Íslandi, um 6.250 manns, borgi í ár 2.900 milljónir í áfengisgjald. „Þetta er skattur á sjúklega neyslu; skattur sem er tekinn af veikasta fólkinu og frá fátækustu fjölskyldunum. Þegar þessir sjúklingar og fjölskyldur þeirra þurfa síðan sárlega á sérstökum úrræðum að halda til að öðlast betra líf segjast stjórnvöld hins vegar enga fjármuni hafa til ráðstöfunar,“ segir SÁÁ.

Markmið frumvarpsins er að gerbylta lífsgæðum þeirra sem þjást vegna áfengis- og vímuefnavandans og bæta með því samfélagið allt, að sögn SÁÁ. „Áfengis- og vímuefnasýki er sá sjúkdómur sem hefur mest áhrif á flestar fjölskyldur á Íslandi. Sá góði árangur sem síðustu 35 ár hafa fært okkur hefur snert nánast hverja fjölskyldu í landinu. Og ef okkur tekst að endurheimta ómæld verðmæti sem í þeim einstaklingum búa sem enn þjást vegna áfengis og vímuefnavandans mun það hafa margföld jákvæð áhrif á líf alls almennings.“

Undirskriftasöfnunin fer fram á síðunni Betra líf

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband frá SÁÁ um frumvarpið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert