„Stórsigur minn og Háskóla Íslands“

Bjarni Randver Sigurvinsson.
Bjarni Randver Sigurvinsson. Morgunblaðið/Sigurgeir S

„Ég er afskaplega ánægður með það að þessu máli innan Háskóla Íslands sé lokið. Ég lít á þetta sem stórsigur míns og Háskóla Íslands. Kæruherferð Vantrúar var aðför að akademísku frelsi háskólakennara og starfsemi háskólans,“ segir Bjarni. 

Kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara við guðfræðideild háskóla Íslands var vísað frá á föstudag. Var hann ásakaður um óvandaða umfjöllun um Vantrú í námskeiði sínu um nýtrúarhreyfingar. Meðal annars notuðu aðilar frá Vantrú glærur úr tímum Bjarna í rökstuðningi sínum í kærunni. Siðanefnd Háskólans vísaði málinu frá eftir að hafa tekið það til umfjöllunar.

Rúm tvö ár eru síðan málið hófst. Vantrú kærði Bjarna Randver upphaflega hinn 4. febrúar árið 2010 til siðanefndar. Þá sendi félagið einnig erindi til guðfræðideildar og rektors. Vantrú sendi lögreglu jafnframt kæru vegna innbrots á lokað spjallsvæði félagsins, málið var fellt niður. Umræður sem þar áttu sér stað voru notaðar sem sönnunargagn í vörn Bjarna.

Ekki viss um að málinu sé lokið utan Háskólans

Bjarni segist ekki viss um að málinu sé alfarið lokið fyrir utan Háskólans. „Vantrúarfélagar hafa þegar birt grein á vefsíðu sinni þar sem þeir hóta frekari greinaherferð gegn mér. Jafnframt hafa þeir gefið það til kynna að þeir hyggist beita sér gegn mér með öðrum hætti. Það var að vísu nokkuð óljóst með hvaða hætti. Þeir hafa þegar kært mig til lögreglu á sínum tíma,“ segir Bjarni.

Áfram umfjöllum um Vantrú í glærum Bjarna

Bjarni kenndi áfangann um nýtrúarhreyfingar í Háskólanum á Bifröst síðastliðinn vetur. Hann segir forsaga hans máls hafa gert það að verkum að nemendur hafi sýnt málefnum Vantrúar mikinn áhuga í námskeiði hans. „Vantrú var áfram inni í prógramminu. En allar glærur sem ég nota í kennslu þær eru stöðugt í uppfærslu. Í tilfelli Vantrúar fjölgaði ég glærunum og ég skerpti á ýmsum atriðum. Ég tók til að mynda fleiri dæmi af orðfæri þeirra. Greindi þá betur sem aðgerðarsinna og útskýrði betur fyrir nemendum af hverju gagnrýni Vantrúarfélaga á einstaka atriði á eldri glærum mínum stæðust ekki. Öll atriði sem Vantrúarfélagar hafa gagnrýnt hvað mest eru áfram í glærunum hjá mér en þar er jafnframt rökstuðningur af hverju það er þar,“ segir Bjarni.

Hann býst við því að kenna námskeiðið aftur í Háskóla Íslands. Námskeiðið er valnámskeið sem kennt er á nokkurra ára fresti. Það var kennt árið 2005, svo aftur árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert