„Óskammfeilin“ ákvörðun Húnaþings

mbl.is/Jim Smart

SKOTVÍS mótmælir harðlega ákvörðun sveitarstjórnar Húnaþings vestra um að leggja bann við rjúpnaveiðum á ákveðnum svæðum innan sveitarfélagsins nema gegn greiðslu fyrir hverja byssu fyrir hvern dag.  „Þessi árlega tilkynning sveitarfélagsins tengist úrskurðarmáli sem brátt verður tekið fyrir af óbyggðanefnd, en sveitarstjórn sýnir almenningi mikinn hroka með því að skapa óvissu meðal veiðimanna um réttarstöðu þeirra með þessum hætti,“ segir í fréttatilkynningu frá SKOTVÍS.

Svæðið sem um ræðir er annarsvegar Víðidalstunguheiði ásamt Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Öxnatungu, og hinsvegar Arnarvatnsheiði og Tvídægra (sem nær niður í Borgarbyggð).  SKOTVÍS hefur mótmælt þessu framferði sveitarstjórnarinnar undanfarin ár og m.a. óskað eftir upplýsingum um landamerki og önnur gögn er varða veghald vegarins upp á Víðidalstunguheiði og átt samtöl við sveitarstjóra til að miðla málum og auk þess aflað upplýsinga frá Vegagerðinni sem hefur styrkt gerð vegarins upp á Víðidalstunguheiði með almannafé.

„Það sem gerir aðgerð Húnaþings vestra einstaklega óskammfeilna gagnvart almenningi þetta árið, er að nú hefur ríkið einnig gert kröfu á þetta sama landsvæði sem jafnframt eykur réttaróvissuna og breytir réttarstöðu skotveiðimanna meðan málið er tekið fyrir af óbyggðanefnd.  SKOTVÍS fór fram á það við sveitarstjórn í lok árs 2010 að sýnt yrði fram á lögleg landarmerki til að gefa því kost á að sýna með óyggjandi hætti hver eignarrétturinn væri.  Í opinberum svörum sveitarstjórnar og sveitarstjóra kemur skýrt fram að þessi landarmerki eru ekki aðgengileg og verið er að leita dyrum og dyngjum að sönnunargögnum svo hægt sé að leggja þau fram í dóm óbyggðanefndar í byrjun næsta árs,“ segir í tilkynningu frá SKOTVÍS.

Því lítur SKOTVÍS svo á að veiðar séu heimilar á þessu svæði, með vísan í 8.gr laga um verndun, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994) þar sem segir: Öllum íslenskum ríkisborgurum, svo og erlendum ríkisborgurum með lögheimili hér á landi, eru dýraveiðar heimilar í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla,enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra.

„Krafa íslenska ríkisins í ofangreint landsvæði er jafrétthá kröfu sveitarfélagsins og því er íslenskum þegnum (sbr. skilgreininguna hér að ofan) heimilt að veiða í þessu landi þar til óbyggðanefnd hefur kveðið upp úrskurð sinn og hugsanlega hæstiréttur.  Ólíklegt er að dómstólar muni taka fyrir kærur út af þessarri stöðu.  

Á þessu stigi er Húnaþing vestra ekki viðurkenndur landeigandi að ofangreindu landsvæði og því hefur réttarstaða skotveiðimanna batnað eftir að ríkið gerði kröfu í sama svæði.  Hver svo sem úrskurður óbyggðanefndar/Hæstaréttar verður, þá munu skotveiðimenn sýna sóma sinn í því að gangast við þeirri niðurstöðu og virða rétt réttmætra landeigenda eins og kveðið er á um í siðareglum félagsins.  SKOTVÍS vill ennfremur hvetja landeigendur og ábúendur til að stuðla að innleiðingu siðareglna meðal þeirra veiðimanna sem fá að veiða í einkalöndum,“ segir í tilkynningunni sem finna má á heimasíðu SKOTVÍS í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert