„Sandkassaleikur“ um Cocoa Puffs

Cocoa Puffs
Cocoa Puffs Ásdís Ásgeirsdóttir

Jón Gerald Sullenberger, eigandi verslunarinnar Kosts, ásakar heildsölufyrirtækið Nathan & Olsen um að sinna löggæsluhlutverki með því að leita uppi Cocoa Puffs morgunkorn sem ekki hafi sértilgerðar merkingar og tilkynna það til heilbrigðiseftirlitsins.

Nathan & Olsen er með umboð fyrir sölu á Cocoa Puffs-morgunkorni á Íslandi. Fyrirtækið kaupir morgunkornið frá Evrópu. Jón Gerald túlkar málin sem svo að hann geti þrátt fyrir það selt Cocoa Puffs, sem hann kaupir í Bandaríkjunum, á Íslandi. 

Telur Jón Gerald að einungis þurfi að merkja Cocoa Puffsið sem Kostur selur sértaklega þar sem ekki sé hægt að tryggja að engin erfðabreytt matvæli megi finna í því. Ku vera nokkur bragðmunur á Cocoa Puffs-inu sem Kostur selur og því sem Nathan & Olsen selur.

„Þeir fara og leita að pökkum sem ekki eru með merkingum á. Einu sinni báðu þeir starfsmann okkar um að fara inn á lager til þess að finna ómerktan pakka.
Þeir leggja sig í líma við að gera okkur lífið leitt. 99,9% af pökkum eru merkt með þessum miðum en svo gleymist þetta í einstaka skipti. Þeir kaupa svo þennan eina pakka sem þeir finna og senda hann til heilbrigðiseftirlitsins,“ segir Jón Gerald.

Kostur tók Cocoa Puffs-ið úr sölu í apríl síðastliðnum eftir að kvartað hafði verið við heilbrigðiseftirlitið um ónógar merkingar. Jón segir að fyrirtækið hafi kippt þessu í liðinn og merki nú allar Cocoa Puffs-pakkningar sínar. Hann telur fulltrúa Nathan & Olsen sinna löggæsluhlutverki.

„Ég vissi ekki að Nathan og Olsen sinnti matvælalöggæslu á Íslandi. Ég held að þeir ættu bara að einbeita sér að því að þjónusta sína viðskiptavini. Þeir eru einungis að skemma fyrir okkur. Þetta finnst mér ótrúlega léleg vinnubrögð og algjör sandkassaleikur,“ segir Jón Gerald.
   
Hann segir að Nathan & Olsen hafi ekki hótað sér málsókn vegna sölu á einkaleyfisbundinni vöru. En hann viðurkennir að Kostur hafi fengið sektir og áminningar frá heilbrigðiseftirlitinu vegna ónógra merkinga. 

Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert