82% segja svarta vinnu vaxandi vandamál

Erlendir ferðamenn í Aðalstræti, en mest er um svarta atvinnustarfsemi …
Erlendir ferðamenn í Aðalstræti, en mest er um svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja SA leiðir í ljós að 82% stjórnenda þeirra telja að svört vinna sé vaxandi vandamál á Íslandi, aðeins 18% telja svo ekki vera.

Samtök atvinnulífsins segja þetta vera mikið áhyggjuefni en SA hafa á undanförnum misserum lagt mikið af mörkum í baráttu gegn svartri atvinnustarfsemi, m.a. í samstarfi við embætti Ríkisskattstjóra og Alþýðusamband Íslands.

„Fyrirtæki sem borga sína skatta og gjöld standa höllum fæti í samkeppni við fyrirtæki í neðanjarðarhagkerfinu. Samkeppnin er jafn ójöfn og í Tour de France þar sem keppendur urðu að lúta í lægra haldi fyrir Lance Armstrong sem neytti ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn. Það er því mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið að allir fari eftir sömu reglum. Það er ólíðandi að hópur fyrirtækja og einyrkja sniðgangi skattareglur og leggi lítið sem ekkert af mörkum til samfélagsins,“ segir í frétt frá SA.

Starfsmenn Samtaka atvinnulífsins, skattayfirvalda og verkalýðshreyfingarinnar hafa farið í vinnustaðaheimsóknir til að kanna stöðu mála. Fyrstu niðurstöður voru birtar í nóvember á síðasta ári, þá kom í ljós að 12% starfsmanna í yfir 2.000 fyrirtækjum sem voru heimsótt reyndust í svartri vinnu. Staða mála var könnuð síðastliðið vor og þá komu fram vísbendingar um heldur minna umfang svartrar vinnu, en í síðastliðið sumar var gert sérstakt átak sem sýndi svarta hagkerfið í mikilli uppsveiflu skv. upplýsingum Ríkisskattstjóra. Verst var ástandið hjá þeim sem stunda akstur í ferðaþjónustu, en þar var hlutfall svartrar atvinnustarfsemi rúm 27%, hjá einyrkjum og litlum fyrirtækjum. Stærri fyrirtæki eru almennt með skattskil í lagi. Dæmi eru um að þeir sem eru í svartri vinnu þiggi um leið atvinnuleysisbætur.

Kunna ekki að slá inn pantanir í bókhaldskerfi

Fjöldi rekstraraðila sem hyggjast hagnast mikið á stuttum tíma kemur hvergi fram. Þannig bentu t.d. Samtök ferðaþjónustunnar á það í febrúar 2011 að gistirými án starfsleyfa í Reykjavík jöfnuðust á við tvö 300 herbergja hótel.

Í vettvangsheimsóknum eru dæmi um að starfsfólk hafi tekið til fótanna, að þjónar kunni ekki að slá inn pantanir í bókhaldskerfi og á einum veitingastað reyndist enginn sex starfsmanna vera á launaskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert