Súrrealísk stemning í New York

Himinninn er heldur drungalegur yfir háhýsunum á Manhattan, en Sandy …
Himinninn er heldur drungalegur yfir háhýsunum á Manhattan, en Sandy er þó enn ekki skollin á. AFP

„Maður veit eiginlega ekki alveg við hverju á að búast, en ég fór og keypti einhverjar nauðsynjar til vonar og vara. Ég veit að í sumum búðum var fólk að rífast um vatnsflöskur í gær,“ segir Þórunn Helga Þórðardóttir laganemi í New York. Borgin er í lamasessi vegna yfirvofandi fellibyljar. 

Öflugasti fellibylur í áratugi

Búist er við því að stormurinn byrji að geisa um stræti stórborgarinnar síðdegis í dag að staðartíma og nái hámarki þar í kvöld eða nótt. Sandy hefur nú þegar skráð sig í sögubækurnar sem öflugasti fellibylur í Norður-Atlantshafi og sá stærsti á landi í Bandaríkjunum norðan Norður-Karólínu síðan 1938, að sögn Wall Street Journal. A.m.k. 66 hafa þegar látið lífið vegna ofsaveðursins og fundar Barack Obama Bandaríkjaforseti nú með almannavörnum.

Stjórnvöld í New York hafa greinilega ákveðið að vera við öllu búin. Almenningssamgöngur hafa verið lagðar niður tímabundið, öllum opinberum stofnunum er lokað og íbúar á neðri hluta Manhattan hafa margir þurfta að yfirgefa heimili sín. Þórunn segir að viðbúnaðurinn leggist misjafnlega í fólk og sumir telji að verið sé að gera of mikið úr hættunni. 

„Málið er að þegar Irene fór yfir borgina [í ágúst 2011] þá voru gerðar svipaðar varúðarráðstafanir. En svo kom sá stormur yfir nótt og fólk svaf hann þægilega af sér og ekkert gerðist í raun. Litla búðin á horninu hjá mér var opin alla þá nótt, á meðan lestarkerfinu var lokað.“ 

Með fulla körfu af kexi

Ljóst er þó að margir taka viðvaranirnar alvarlega því fólk hefur verið að hamstra matvörur. Þegar Þórunn fór á stjá í gær rakst hún á þær lengstu raðir sem hún hefur séð við verslanir í borginni. „Þær voru eins og snákur inni í allri búðinni, út og fyrir næsta götuhorn.“ Margar hillur eru tómar og kerti og vasaljós eru sögð uppseld í borginni. Þórunn segist sjálf hafa klórað sér í höfðinu yfir því hvernig best væri að búa sig undir bylinn. 

„Ég vissi hreinlega ekki hvað ég ætti að kaupa. Við Reykvíkingar erum ekki vanir þessari stemningu. Ég átti reyndar ágætis birgðir af vatni, en keypti Cheerios, epli og banana, svo átti ég hnetusmjör! Fólk var almennt að kaupa dósamat og mikið af vatni og vökva. Klósettpappír er líka afskaplega vinsæll. Svo sá ég einn með körfu fulla af poptarts, það fannst mér fyndið.“

Með hnetusmjör og Cheerios að vopni

Þórunn Helga er meistaranemi í lögfræði við Columbia-háskóla, en skólanum hefur verið lokað vegna veðursins. Hún segist hafa fengið fjölda tilkynninga frá skólayfirvöldum um Sandy sem allar séu á sama veg, að best sé að halda sig inni þar til stormurinn hefur gengið yfir. Hússtjórnin í byggingunni þar sem hún býr hefur einnig sent tilmæli til íbúa um að loka öllum gluggum vel og verða sér úti um vatn, vasaljós og rafhlöður.

Helst er búist við því að hugsanleg flóð geti valdið usla og tjóni, bæði á húsum og í lestarkerfinu, en háflæði er um 20-leytið í kvöld. Varað hefur verið við því að vatnsflóð kunni að valda rafmagnsleysi og er fólk því t.d. beðið um að nota ekki lyftur heldur stiga. Einnig er hugsanlegt að flóð spilli grunnvatninu. Margir búðareigendur hafa neglt fyrir glugga hjá sér og sandpokum hefur verið staflað upp í flóðvarnargarða, m.a. við verðbréfamiðlunina á Wall Street.

Þórunn segir að ástandið í borginni sé því svolítið súrrealískt, þótt lítið sé byrjað að blása ennþá. Hún segist hafa heyrt af því að sumir nágrannar hennar í húsinu hafi blásið til „stormpartýs“. Sjálf ætlar hún að hafa sig hæga meðan Sandy gengur yfir. „Ég held að ég sitji þetta bara ein af mér. Vopnuð hnetusmjöri og Cheerios.“

Hér má fylgjast með slóð fellibyljarins Sandy.

Fylgst með ölduróti í höfn New York.
Fylgst með ölduróti í höfn New York. AFP
Sandpokar við Verðbréfamiðlun New York-borgar.
Sandpokar við Verðbréfamiðlun New York-borgar. AFP
Hreinsað hefur verið úr hillum Waldbaums-matvöruverslunarinnar, fólk hamstrar vörur til …
Hreinsað hefur verið úr hillum Waldbaums-matvöruverslunarinnar, fólk hamstrar vörur til að búa sig undir komu Sandy. AFP
Lokað fyrir innganginn í neðanjarðarlestarkerfi New York-borgar við Battery Park.
Lokað fyrir innganginn í neðanjarðarlestarkerfi New York-borgar við Battery Park. AFP
Seward Park-gagnfræðaskólanum hefur verið breytt í neyðarskýli fyrir fólk af …
Seward Park-gagnfræðaskólanum hefur verið breytt í neyðarskýli fyrir fólk af Lower Manhattan sem yfirgefa þurfti heimili sín vegna stormsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert