Landinn heldur sig heima í óveðri

Það er ekkert ferðaverður um allt land.
Það er ekkert ferðaverður um allt land. mbl.is/Ómar Óskarsson

Afar rólegt er í öllum lögregluumdæmum á landsbyggðinni í kvöld og virðist sem fólk hafi farið að tilmælum Vegagerðarinnar og Veðurstofunnar um að leggja ekki í ferðalög að óþörfu. Hins vegar virðist veðrið ekki hafa áhrif á kaupglaða höfuðborgarbúa því margir hafa lagt leið sína í Kringluna í kvöld en þar er opið til miðnættis.

Lögregla alls staðar á landinu hefur þá sögu að segja að varla sé nokkur maður á ferli enda veður alls staðar afar vont og ekki hundi út sigandi. Líkt og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld hefur vindhraðinn farið yfir 60 metra á sekúndu í verstu hviðunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er óveður á Kjalarnesi og við Akrafjall. Það eru hálkublettir á Gjábakkavegi og í sunnanverðum Hvalfirði.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum. Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku. Hálkublettir og óveður er á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er þungfært og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja og skafrenningur á Þröskuldum. Snjóþekja og stórhríð er á Gemlufallsheiði. Hálka eða hálkublettir og éljagangur eða skafrenningur er á öðrum leiðum. Ófært og stórhríð er á Klettsháls. Ófært er á  Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, einnig er ófært á Veiðileysuhálsi.

Stórhríð á Vatnsskarði

Á Norðvesturlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingsfærð  og stórhríð er á Þverárfjalli og á Vatnsskarði.

Á Norðausturlandi er hálka og skafrenningur á Siglufjarðarvegi, þæfingsfærð og stórhríð á Öxnadalsheiði og Víkurskarði. Þungfært og éljagangur er í Dalsmynni. Ófært er á Hólasandi. Snjóþekja og stórhríð er á Mývatnsöræfum, snjóþekja og óveður á Hófaskarði og hálka og óveður á Sandvíkurheiði. Hálka og skafrenningur eða éljagangur er á öðrum leiðum.

Óveður við Lómagnúp og undir Eyjafjöllum

Á Austurlandi er ófært á Fjarðarheiði, í Oddskarði og á Fagradal og er beðið með mokstur, ófært er líka á Breiðdalsheiði og Öxi. Snjóþekja, hálka og stórhríð er á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði. Ófært er á Vatnsskarði eystra. Hálka og óveður er á milli Breiðdalsvíkur og Hafnar. Snjóþekja eða hálka og snjókoma eða skafrenningur er á öðrum leiðum. Á Suðaustur- og Suðurlandi er óveður við Lómagnúp og undir Eyjafjöllum. Hálkublettir eru frá Kvískerjum að Vík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert