„Vilji menn halda flokknum saman“

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Kristinn Ingvarsson

„Vilji menn halda flokknum saman horfa menn að sjálfsögðu til þess að við erum ekki að tala um örfáa einstaklinga heldur mjög almennt sjónarmið innan okkar hreyfingar,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra um stöðu „villikattanna“ innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eftir að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, lýsti því yfir að hún ætlaði ekki að sækjast eftir áframhaldandi þingsetu eftir kosningarnar á næsta ári.

Ögmundur hafnar því að forysta VG hafi sett hörðustu andstæðinga ESB-aðildar innan flokksins til hliðar og gerir lítið úr skoðanamun sínum við Steingrím J. Sigfússon. 

Hann boðar kaflaskil í Evrópumálunum fyrir næstu kosningar.

„Ég skilgreini þá sem eru efasemdafullir um ESB-aðild Íslands sem hófsemdarmenn. Ég lít nú ekki svo á að þetta sé að gerast eftir þessum línum. Hitt er annað mál að innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið mismunandi áherslur um hvaða leiðir við eigum að fara í þessum efnum. Ég hef hins vegar litið svo á að það sé breið samstaða um það að við lok þessa kjörtímabils séu alger kaflaskipti.

Sjálfur hefði ég viljað fá þjóðaratkvæðagreiðslu áður en kjörtímabilið er úti og hef margoft talað fyrir því sjónarmiði innan stjórnarmeirihlutans. Sú lending er ekki enn í augsýn því miður en þá verða menn líka að átta sig á því að við næstu kosningar verða mjög skýr kaflaskil. Það umboð sem veitt var er ekki um alla ófyrirsjáanlega framtíð og var aldrei veitt sem óútfylltur víxill fyrir aðildarsinna að velja hagstæðan tímapunkt fyrir kosningu. Í sjálfu sér óttast ég engar tímasetningar en er hins vegar ekki reiðubúinn að halda áfram fjáraustri í þessa vegferð út í hið óendanlega.“

Viðræðurnar verði settar á ís

- Er ekki ljóst að það verða ekki kaflaskil í ESB-málum við alþingiskosningarnar í vor?

„Það sem ég á við með kaflaskilum er að þá yrðu lyktir á viðræðum og þær ekki teknar upp að nýju nema að afstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

- Hvernig bregstu við þeirri greiningu að ESB-andstaða Guðfríðar Lilju eigi þátt í brotthvarfi hennar og að þess vegna sé Ólafur Þór Gunnarsson kominn í prófkjör í Kraganum?

„Ég ætla nú að einbeita mér að því sem við blasir, prófkjöri sem er fyrirhugað 24. nóvember og láta mig minna skipta greiningu á því hvað vakir fyrir mönnum. Þar verður hver og einn að svara fyrir sig. Ég gef mér að Guðfríður Lilja hafi einfaldlega tekið ákvörðun um að hætta í stjórnmálum, alla vega býður hún sig ekki fram í komandi kosningum. Það er hennar ákvörðun og hún ein skýrir forsendur hennar.“

Sjónarmiðin enn til staðar

- Nú eru Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Guðfríður Lilja öll hætt. Er ekki augljóst að svonefndum villiköttum hefur verið þokað út?

„Það er deginum ljósara að þeir sem fengu þessa einkunnagjöf á sínum tíma – sem mér finnst ekkert slæm að því leyti að okkur var sagt að villikettur væru ekki auðsveipir gagnvart yfirvaldi  - eru sumir hverjir horfnir á braut úr flokknum. Aðrir ætla ekki að gefa kost á sér í kosningum. En þau sjónarmið sem þetta fólk var í forsvari fyrir eru enn til staðar hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, að ekki sé minnst á í samfélaginu almennt. Það breytist ekkert þrátt fyrir ýmsar hrókeringar innanbúðar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Það er nokkuð sem ég hygg að þeir sem stýra för í flokknum hljóti að hafa hugfast.

Vilji menn halda flokknum saman horfa menn að sjálfsögðu til þess að við erum ekki að tala um örfáa einstaklinga heldur mjög almennt sjónarmið innan okkar hreyfingar. Ég held að það sé alveg augljóst að menn þurfa að horfa til þeirra sjónarmiða sem hafa verið kennd vð hennan hóp. Ef á þau sjónarmið er stigið mun það segja til sín í fylgi flokksins. Þannig að ég held að skynsemi manna muni hníga í þá átt í aðdraganda kosninga að leggja meiri áherslu á það sem sameinar en ekki hitt sem sundrar.

Með framboði mínu vil ég  leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða. En það breytir því ekki að ég mun ekki bregðast sannfæringu minni. Ég ber þá von í brjósti að við innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sameinumst við um áherslur varðandi náttúruauðlindirnar, velferðarkefið og ESB-ferlið sem þú spyrð sérstaklega út í, að við leitumst við að skapa breiða  sátt um þessi grundvallarmál.“

Hafnar skiptingu eftir landshlutum

- Felur brotthvarf Guðfríðar Lilju í sér að umhverfisverndarsinnar og femínistar í VG á höfuðborgarsvæðinu eru að ná yfirhöndinni gagnvart félögum sínum á landsbyggðinni þar sem ESB-málin eru efst á blaði?

„Ég hefði nú haldið að Guðfríður Lilja hefði flestum fremur verið málsvari kvenfrelsisjónarmiða og jafnréttis hvar sem á þjóðfélagið er litið. Annars hef ég aldrei tekið undir að það sé sú aðgreining á viðhorfi félaga í VG til ESB sem margir vilja vera láta með skírskotun til landsbyggðar annars vegar og höfuðborgar hins vegar.

Ég og Guðfríður Lilja, til að mynda,  höfum verið fulltrúar VG á höfuðborgarsvæðinu en engu að síður með skýra afstöðu í þessu efni. Ég hef alltaf litið á sjálfan mig sem þingmann landsins alls. Og lagt ríka áherslu á byggðamál og hagsmuni fólks og byggðarlaga  óháð kjördæmum. Það hefur kannski verið kostur við okkar hreyfingu að hún hefur hugsað á landsvísu en ekki á þrönga kjördæmavísu. Það hefur verið almenna reglan – þótt hjá okkur eins og annars staðar sanni undantekningar regluna.“

Of mikið gert úr persónum

- Er staða þín og þinna skoðanabræðra innan VG að veikjast en staða Steingríms J. Sigfússonar og skoðanabræðra hans að styrkjast?

„Ég tel að menn geri of mikið úr því að stilla okkur upp sem pólum í flokknum sem persónum. Við höfum að sjálfsögðu verið sammála um margt og ósammála um annað eins og á við um aðra einstaklinga innan hreyfingarinnar. Þannig hefur þetta verið í tímans rás.

Ég kýs að horfa framhjá persónum en á þær áherslur sem ég hef viljað halda á lofti og ég finn fyrir því að þær eiga ágætan hljómgrunn hjá VG þrátt fyrir þær mannabreytingar sem orðið hafa og mér þykja leiðar. Ég sé eftir góðum félögum af vettvangi stjórnmálabaráttunnar en er þrátt fyrir allt bjartsýnn á framtíðina. Það er mín stefna. Að glata aldrei bjartsýninni. Aldrei,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert