Óskaði kirkjunni góðs um ókominn tíma

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra mbl.is/Árni Sæberg

Innanríkisráðherra sagðist við upphaf kirkjuþings í morgun vera kominn til að óska þjóðkirkjunni á Íslandi góðs um ókominn tíma. „Það er sú kirkja sem þjóðin ákvað að ætti að vera með okkur um ókominn tíma. Niðurstaða þjóðarinnar er áskorun á hendur kirkjunni. Ég veit að hún mun svara kalli þjóðarinnar; rísa undir þeirri ábyrgð sem ætlast er til að hún axli sem þjóðkirkja.“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagðist í ræðu sinni finna að landið væri að rísa. „Við finnum öll að landið er að rísa. Ísland er að stíga á fætur. Erfiðleikarnir eru vissulega ekki að baki. Enn mun það taka tíma - hugsanlega langan tíma - að vinna okkur út úr þeim vanda sem við höfum átt við að stríða vegna efnahagshrunsins og lýðræðiskreppunnar sem hruninu fylgdi. “

Hann sagði að þjóðinni myndi takast að sigrast á erfiðleikunum. „Þjóðin veit að leiðin út úr vandanum er ekki að höggva á rótina til að ganga inn í nýja veröld sögulaus og allslaus. 
Hún veit að við eigum að horfast í augu við okkur sjálf; greina það góða í okkur og okkar arfleifð og menningu og næra þá góðu rót sem hún er sprottin af. Þetta þarf kirkjan að gera og það veit ég að hún mun gera. Óttalaus, staðföst og sterk. Það er sú kirkja sem þjóðin greiddi atkvæði um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert