Hvort er eitur eða áburður betri gegn lúpínu?

Hvernig er best að takast á við lúpínubreiður í Þórsmörk?
Hvernig er best að takast á við lúpínubreiður í Þórsmörk? mbl.is

Skógrækt ríkisins segir að sú hugmynd að vinna gegn útbreiðslu lúpínu í Þórsmörk með því að mynda kröftugt kjarrlendi úr birkinýgræðum með áburðargjöf sé sprottin út frá rannsóknum sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar. Þeir gagnrýna hins vegar Skógræktina fyrir þessa tilraun og vilja frekar berjast gegn henni með eitri.

Náttúrufræðistofnun birti í gær grein á heimasíðu sinni eftir Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon þar sem þeir gagnrýna Skógræktina fyrir að ætla að reyna að hamla gegn útbreiðslu lúpínu með áburðargjöf. Þeir telja allar líkur á að tilraunin muni mistakast og afleiðingin verði í raun sú að lúpína muni dreifast um víðáttumikið, skóglaust land á Þórsmerkursvæðinu.

Skógræktin svarar greininni í dag. Þar vísa þeir til orða Borgþórs og Sigurðar um að Skógrækt ríkisins hafi slegið hugmyndir Landgræðslu ríkisins um Roundup-eitrun í lúpínubreiðum í Þórsmörk út af borðinu í kjölfar eitrunar sem gerð var við Álfakirkjuna í Goðalandi árið 2009.

„Það var ekki að ástæðulausu að Skógrækt ríkisins hafnaði þeirri leið. Vorið 2010 var eitrun Landgræðslunnar skoðuð og kom þá í ljós að vissulega hafði tekist að drepa gamlar lúpínuplöntur er þar uxu, en einnig birki, víði og annan gróður sem óx þar með lúpínunni. Vorið eftir hafði fjöldi smáplantna af lúpínu vaxið upp á svæðinu en lítið var eftir af samkeppnisgróðri. Passar þessi útkoma nokkuð vel við þær niðurstöður sem fengist hafa úr Roundup eitrunartilraun Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum sem Borgþór og Sigurður vitna til,“ segir í greininni. Vísað er jafnframt í BS ritgerð Magnúsar Þórs Einarssonar frá árinu 2009 og  BS ritgerð Ástu Eyþórsdóttur frá árinu 2009.

Í grein Skógræktarinnar segir að í ljósi þessara rannsókna sé óskiljanlegt hvað býr að baki fullyrðingu Borgþórs og Sigurðar um árangur eitrunartilrauna Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti, en þeir segja að hægt sé að halda lúpínu í skefjum með Roundup án þess að drepa staðargróður.

„Þær aðgerðir sem Skógrækt ríkisins hyggst fara í til að halda aftur af útbreiðslu lúpínunnar snúast ekki um að beina áburðargjöf á einsleitar lúpínubreiður, heldur að mynda þéttar nýgræður af birki í nágrenni lúpínubreiðanna með áburðargjöf. Er þar verið að vinna samkvæmt einni af fáum birtum heimildum um útbreiðslu lúpínu (Fjölrit Rala nr. 207, 2001, „Gróðurframvinda í lúpínubreiðum“) og eru höfundar þess hinir sömu og gagnrýna fyrirhugaðar aðgerðir Skógræktar ríkisins;  þeir Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon, auk Bjarna Diðriks Sigurðssonar. Í þessari skýrslu sem birtir niðurstöður þriggja ára  rannsókna, kemur m.a. fram að: ,,þykkt svarðlag eða hávaxinn gróður, svo sem skógur, þétt kjarrlendi, gróskumikið blómlendi og graslendi [virðist] vera Þrándur í Götu hennar [lúpínunnar]. [innskot höfundar]

Sú hugmynd Skógræktarinnar að mynda kröftugt kjarrlendi úr birkinýgræðum með áburðargjöf er því sprottin beint af viskubrunni Borgþórs og Sigurðar og má leiða líkum að því að þeir fagni ráðagerðum Skógræktarinnar í Þórsmörk nú þegar fyrrnefndum misskilningi hefur verið eytt.

Hvað varðar afræningja á lúpínu hefur breyting orðið á síðustu árum. Í dag lifa nokkrar tegundir fiðrildalirfa á lúpínu og eru þær algengustu, ertuygla, brandygla, mófeti og skógbursti. Hafa þessar lirfur náð svo mikilli stofnstærð að þær hafa á fáum árum breytt lúpínubreiðum í graslendi þar sem oft er jafnframt að vaxa upp birkiskógur. Má sjá dæmi um slíka öra framvindu á Markarfljótsaurum, í Þjórsárdal og á Haukadalsheiði. Ekki sér fyrir endann á þessari framvindu en nýjar rannsóknir sem unnið er að þessi árin eiga eftir að varpa nýju ljósi á og auka  þekkingu okkar um lúpínuna og samspil hennar við annað í lífríkinu.

Nefnd hefur verið sú hugmynd að notast við kjötmjölsáburð til að stuðla að framvindu birkisins. Kjötmjöl er lífrænn áburður sem leysist upp á 2-3 árum og er framleiddur hér á landi úr innlendu hráefni. Hann hefur verið notaður til uppgræðslu víða um land með góðum árangri. Borgþór og Sigurður telja að áburðargjöf með kjötmjöli sé hæpin aðgerð á fjölsóttu ferðamannasvæði. Er þetta réttmæt ábending, enda þekkt að mávar sækja í mjölið fyrstu dagana eftir dreifingu og mávar eru misvinsælir gestir á ferðamannastöðum. En í ljósi áhyggja Borgþórs og Sigurðar af notkun kjötmjöls, er nokkur þversögn í því fólgin, að þeim þyki verjandi að úða gróður á sama fjölsótta ferðamannastað með eiturefnum,“ segir í grein Skógræktarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert