Eltir vinnan okkur heim?

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir félagsfræðingur við Háskóla Íslands.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir félagsfræðingur við Háskóla Íslands.

„Fólk getur tekið með sér vinnuna hvert sem er í dag; á sólarströnd eða í sumarbústað. Hin fullkomna stjórn á aðstæðum, eða hvað?“ spurði Guðbjörg Linda Rafnsdóttir félagsfræðingur við Háskóla Íslands á fundi á Grand hóteli í morgun þar sem rætt var um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

„Eru nútímafjölskyldur enn að glíma við samspil fjölskyldu- og atvinnulífs?“ spurði Guðbjörg Linda. 

„Við höfum réttilega rómað það frelsi sem tölvutæknin hefur fært okkur. Fólk kemst fyrr heim til sín úr vinnunni, en það er samt ennþá í vinnunni. Hún fer með okkur heim,“ sagði Guðbjörg Linda.

„Á sama tíma og sveigjanleiki hefur aukist höfum við aldrei verið jafnföst í viðjum vinnunnar. Við erum meira í vinnunni nú en áður.“

Guðbjörg Linda vísaði í rannsókn sem byggðist á viðtölum við stjórnendur og starfsfólk Háskóla Íslands þar sem m.a. spurt var um sveigjanleika í vinnu og áhrif hans á einkalíf.

Einn sem tók þátt í rannsókninni sagði að heimilisverk, barnauppeldi og vinna rynnu saman í eitt eftir að komið væri heim úr vinnunni. Annar viðmælandi sagðist hafa unnið heima hjá sér öll kvöld, því hann hefði þurft að fara heim klukkan fjögur á daginn til að sækja börn í leikskóla.

Missa rétt til gagnrýni við barneignir

Guðbjörg sagði að konurnar afsökuðu gjarnan að taka vinnuna með sér heim, þær segðust hafa valið að eignast börn og sinna starfi. „Eins og barneignir hefðu tekið frá þeim réttinn til að gagnrýna samspil atvinnu og barnauppeldis.“ Öðru máli gegndi um karlana, en í sumum tilvikum hefðu eiginkonurnar minnkað við sig starfshlutfall þegar þeir klifruðu upp metorðastigann.

„Getur verið að við höldum áfram að vinna, sem við hefðum ekki gert ella, því hún eltir okkur heim í tölvunum og símunum? Er sveigjanleiki farinn að snúast upp í andhverfu sína?“ spurði Guðbjörg Linda og sagði að um þetta þyrftu stjórnendur og starfsmannastjórar að hugsa.

„Vinnustaðir verða sífellt gráðugri og ætlast til meira af starfsfólki sínu. Þess vegna þurfa stjórnendur að huga að því hvaða skilaboð þeir senda sjálfir. Stundum senda þeir t.d. skilaboð til starfsmanna um helgar og á kvöldin og þakka þeim fyrir að svara um hæl,“ sagði Guðbjörg Linda. Hún sagði að fyrirtæki þyrftu að setja sér reglur um notkun tölva og tölvupóst utan hefðbundins vinnutíma. Þannig væri hægt að koma  í veg fyrir ótímabært starfsþrot, þrátt fyrir dásemdir þessarar tækni.

Fundurinn var boðaður af vinnuhópi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Hópurinn var skipaður af velferðarráðuneytinu í samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert