Ólína á móti jöfnun atkvæða

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, lýsti í kvöld yfir andstöðu við tillögu í frumvarpi um nýja stjórnarskrá um fulla jöfnun atkvæða.

Þingmenn hafa í allan dag rætt um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Einar Guðfinnsson alþingismaður gagnrýndi tillögu um jöfnun atkvæða. Hann sagði þessa tillögu fela í sér að sex þingmenn úr landsbyggðarkjördæmum yrðu færðir til höfuðborgarsvæðisins. Hann sagðist líka óttast að tillögur um landslista yrðu til þess þess að af honum yrðu fyrst og fremst kjörnir þingmenn af höfuðborgarsvæðinu eða menn sem hefðu litlar skoðanir á hagsmunamálum landsbyggðarinnar.

Ólína sagðist vera sammála Einari í þessu máli. Það kynni að hljóma vel að atkvæði giltu jafnt um allt land, en þessi tillaga gæti líka haft óæskileg áhrif. Þetta myndi leiða til áhrifaleysis landsbyggðarinnar. Landssvæði þyrftu að eiga áhrif inn á Alþingi, ekki bara einstaklingar.

Ólína sagði að ef Evrópusambandið gengi svona langt í að jöfnun atkvæða myndi það koma illa við fámennar þjóðir eins og Íslendinga. Hún sagði að áhrif þessarar tillögur gætu orðið neikvæð á mannréttindi á Íslandi. Það væri talið eðlilegt í vissum málaflokkum að vera með jákvæða mismunun. Hún sagðist telja að í þessu máli væri æskilegt að vera með jákvæða mismunun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert