Áskorun um viðskiptabann á Ísrael

AFP

Á morgun, föstudaginn 23. nóvember, klukkan 17:00, mun Stefán Jónsson, leikari og leikstjóri, afhenda Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra undirskriftir um 5.000 Íslendinga sem krefjast þess að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael á „meðan þarlend stjórnvöld þverbrjóti alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna - og viðhaldi áratugalöngu hernámi sínu í Palestínu,“ líkt og segir í fréttatilkynningu.

Þegar hafa um 4.700 einstaklingar skrifað undir áskorunina til ríkisstjórnar Íslands.

Takmark Stefáns þegar söfnuninni var hrundið af stað fyrir nokkrum dögum var að ná 5.000 undirskriftum.

Að þessu tilefni boðar Félagið Ísland-Palestína til samstöðufundar og meðmæla með mannréttindum, réttlæti og friði á svæðinu. Allir sem vilja standa með frelsi og mannréttindum til handa öllum íbúum hertekinnar Palestínu og Ísraels - og kröfunni um að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael, þar til þarlend stjórnvöld fari að alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna, aflétti umsátri sínu um Gaza og hætti landráni og hernámi sínu í Palestínu - eru hvattir til að mæta kl. 17 við Stjórnarráðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert