Vopnað rán við Grundarstíg

Lögreglan er með viðbúnað við verslun við Grundarstíg þar sem …
Lögreglan er með viðbúnað við verslun við Grundarstíg þar sem vopnað rán var framið í kvöld. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Talið er að vopnað rán hafi verið framið í verslun við Grundarstíg í kvöld. Samkvæmt heimildum mbl.is mun hafa verið hleypt af skotvopni. Lögreglan verst allra frétta af málinu.

Vopnuð sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til ásamt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem er með viðbúnað við húsið.

Uppfært kl. 00:33:

Lögreglan sendi fjölmiðlum staðfestingu á því að laust fyrir miðnætti hefði verið framið rán í söluturni í miðborg Reykjavíkur.

Rannsókn stendur yfir og á þeim möguleika að skotvopni hafi verið beitt í ráninu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sakaði engan.

Talið er að gerandi hafi haft með sér eitthvað af reiðufé en á þessari stundu liggur ekki ljóst fyrir um hve háa upphæð ræðir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ásamt sérsveit RLS leitar geranda.

Þeim sem hafa upplýsingar um málið er bent á að hafa samband við lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert