Aðeins tveir þingmenn mættu

Einungis tveir nefndarmenn atvinnuveganefndar Alþingis mættu á fund nefndarinnar í morgun en á fundinn var búið að boða fulltrúa bænda til að ræða frumvörp til breytinga á búnaðarlögum og breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Fulltrúar bænda lögðu á sig langt ferðalag til að mæta á fundinn.

Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins. Fulltrúar Bændasamtakanna, fulltrúar Landssamtaka sauðfjárbænda og fulltrúar Landssambands kúabænda voru boðaðir á fund nefndarinnar til að svara spurningum og gefa álit á frumvörpunum. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, kom norðan úr Eyjafirði til fundarins, Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, kom með flugi frá Akureyri til að sitja fundinn. Þá keyrði Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, um 100 kílómetra leið heiman að frá sér til að komast á fundinn.

Níu þingmenn sitja í atvinnuveganefnd. Af þeim voru einungis Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður nefndarinnar og Einar Kristinn Guðfinnsson mætt á fundinn, en hann hófst klukkan 9:30 í morgun.

Í frétt Bændablaðsins segir að samkvæmt fjarvistarskrá Alþingis voru einungis Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir skráð með fjarvist í dag. Hvorugt þeirra situr í atvinnuveganefnd.

Baldur Helgi segir í samtali við blaðið að honum þyki þessi dræma mæting lýsa skeytingarleysi nefndarmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert