Gísli vinnur að 33 ára gömlu morðmáli

Etan Patz. var úrskurðaður látinn árið 2001 en líkamsleifar hans …
Etan Patz. var úrskurðaður látinn árið 2001 en líkamsleifar hans hafa aldrei fundist. AFP

Lögfræðingar meints morðingja hins sex ára gamla Etan Patz, sem hvarf sporlaust árið 1979 í New York, hafa ráðið Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing til að meta trúverðugleika játningar mannsins. Frá þessu er greint á vefsíðu DNAinfo.com New York.

Verjendur Pedros Hernandez vilja sanna að játningin hafi verið þvinguð fram, að sögn Harvey Fishbein.

„Hann er hæfastur,“ segir Fishbein um Gísla. Hann segir Gísla þegar hafa skrifað skýrslu um málið.

Í greininni er farið yfir feril Gísla og m.a. sagt frá að hann hafi þróað aðferðir til að meta áhrif lágrar greindarvísitölu og löngunar til að gera öðrum til geðs á falsar játningar.

Fishbein segist vona að Gísli geti hjálpað við að fá játningu Hernandez ómerkta.

Vitnisburðir sem teknir eru við óviðunandi kringumstæður eru ómarktækir og slíkt átti sér stað í máli Hernandez, að sögn Fishbeins. Hann segir að lögreglan hafi yfirheyrt Hernandez í 6-7 klukkustundir.

Fishbein segir að ímyndun og lág greindarvísitala hafi m.a. átt þátt í því að Hernandez játaði morðið.

Etan hvarf frá heimili sínu á Prince-stræti í New York í maí árið 1979. Það var í fyrsta sinn sem hann fékk að ganga einn í skólabílinn. Ekkert spurðist til hans eftir það.

Rannsókn lögreglunnar var umfangsmikil en árið 2001 var Etan úrskurðaður látinn.

En í maí á þessu ári var málið endurupptekið er vísbending barst um aðild Hernandez að málinu. Hann var 19 ára er drengurinn hvarf en er 52 ára fjölskyldufaðir í dag. Hann er ekki á sakaskrá.

Hernandez sagði lögreglunni að hann hefði lokkað Etan ofan í kjallara í húsi þar sem hann vann. Hann segist svo hafa kyrkt barnið og sett líkið í plastpoka sem hann skildi eftir úti á götu.

Hernandez mun koma fyrir dómara á ný 30. janúar.

Gísli Guðjónsson.
Gísli Guðjónsson. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert