Þingstörfum hvergi nærri lokið

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Golli

Ekki er útlit fyrir að þingstörfum ljúki á næstunni. Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að staðan sé óbreytt, mörg mikilvæg mál liggi fyrir þinginu og ekki sé búið að semja um meðferð þeirra. Á meðal þeirra mála sem stjórnarflokkarnir vilji klára sé rammaáætlunin.

Illugi segir að hann eigi alveg eins von á því að þinghald verði nánast ofan í jólin, því að málin sem verið sé að fást við séu þess eðlis að þau muni taka tíma. „Þeirra á meðal eru rammaáætlunin, fjárlögin, bandormurinn og breytingar á tollum og vörugjöldum sem allt eru mjög umdeild og stór mál og síðan fjöldi annarra smærri mála sem verður að klára fyrir áramótin. Við það bætast svo önnur mál sem menn eru að velta fyrir sér hvort  nauðsynlegt sé að klára í desember eða hvort þau geti beðið fram í janúar, þannig að það er heilmikið eftir hjá þinginu.“

Illugi segir að það sé mjög rík krafa hjá stjórnarflokkununum að rammaáætlunin verði á meðal þeirra mála sem verði kláruð núna fyrir áramótin. Hann eigi þess vegna von á því að umræðan um rammaáætlunina muni halda áfram á morgun þó að hann geti ekki fullyrt neitt um það. „Umræðu um rammaáætlunina er ekki lokið og í kjölfar sameiginlegs fundar umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar á laugardaginn með fulltrúum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins er eðlilegt að málið verði rætt í þingsalnum á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert