Hættustigi aflétt að hluta

Hættustigi almannavarna hefur verið aflétt m.a. á Akureyri en þar …
Hættustigi almannavarna hefur verið aflétt m.a. á Akureyri en þar er snjóþungt eins og víðar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í samráði við lögreglustjórana í Borgarfirði og Dölum, Snæfellsnesi, Blönduósi, Skagafirði, Akureyri og Húsavík hefur verið ákveðið að aflétta hættustigi almannavarna sem lýst var yfir þann 29.12.2012 vegna óveðurs.

Áður var búið að aflétta hættustiginu á Selfossi, Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi.

Hættustig almannanvarna verður áfram í gildi á Vestfjörðum en enn á eftir að opna þar vegi og koma á rafmagni allsstaðar. Viðbúnaður vegna snjóflóðahættu er enn í gangi á hluta svæðisins.

Ákveðið var að aflýsa hættustigi á reit 5 og 6 í Súðavík og reit 8 í Hnífsdal sem og á Seljalandsvegi 100 og 102 á Ísafirði. Einnig er aflétt rýmingu á bænum Fremstu-Húsum í Dýrafirði.

Áframhaldandi rýming er í gildi vegna snjóflóðahættu á Fremri-Breiðadal og Veðrará í Önundarfirði, Steiniðjureitnum á Ísafirði, Höfða og Kirkjubæ í Skutulsfirði, Heimabæ og Félagsheimilinu í Hnífsdal svo og Kirkjubæ í Korpudal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka