Í reynd neyðarástand á Vestfjörðum

Fárviðrið á Vestfjörðum í desember setti allt úr skorðum.
Fárviðrið á Vestfjörðum í desember setti allt úr skorðum. mbl.is//Halldór Sveinbj

Í Súðavíkurhlíð eru 22 þekkt snjóflóðagil. Á meðan fárviðrið gekk yfir Vestfirði um jólin féllu flóð úr 20 þessara gilja. Ólína Þorvarðardóttir segir að í raun og veru hafi ekki aðeins ríkt hættuástand á Vestfjörðum, heldur neyðarástand. Þverpólitískur vilji kom fram á Alþingi í dag um að aðgerða sé þörf.

Sérstakar umræður voru um raforku, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga og stóðu Ólína Þorvarðardóttir og Einar K. Guðfinnsson að umræðunni en Ögmundur Jónasson Jónasson innanríkisráðherra var til andsvara.

Óásættanleg staða 

Ólína sagði tilefnið þá alvarlegu veikleika sem afhjúpuðust á öllum þessum þegar fárviðri gekk yfir Vestfirði milli jóla og nýárs en þá tepptust allar helstu leiðir, rafmagn fór af í allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga og síma- og fjarskiptasamband lagðist af um tíma. Þar á meðal var tetra kerfið, sem almannavarnir, lögregla og björgunarsveitir reiða sig á til fjarskipta.

„Þennan skamma tíma var ekki aðeins hættuástand á Vestfjörðum, í raun og veru ríkti þar neyðarástand,“ sagði Ólína þegar hún hóf umræðuna. Benti hún á að sú óásættanlega staða sem þarna skapaðist geti hvenær sem er skapast aftur, því veðuröfgar verði æ tíðari.

Súðavíkurhlíðin rússnesk rúlletta

„Það gengur ekki að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða séu lokaðar vegna snjóa og snjóflóðahættu,“ sagði Ólína. Súðavíkurhlíðin, ein helsta samgönguæð íbúa við þjóðvegakerfið yfir vetrarmánuðina, væri rússnesk rúlletta sem sæist best á því að úr 22 þekktum snjóflóðagiljum féllu 20 flóð þessa daga í desember. Í ljósi þessa sagði Ólína að Súðavíkurgöng hljóti að komast á teikniborðið og í samgönguáætlun hið fyrsta.

Margir þingmenn tóku til máls í kjölfar Ólínu og voru þeir almennt á einu máli um að við þetta ástand verði ekki unað. Þannig sagði Ásmundur Einar Daðason að þingheimur allur hljóti að sameinast um að bæta raforku- og fjarskiptaöryggi Vestfirðinga.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði að óveðrið hafi afhjúpað veikleika sem hefðu ekki átt að koma neinum á óvart því umræða hafi verið um það í nokkurn tíma að kerfið væri í molum. „Við ættum frekar að spyrja okkur hvers vegna við komum öll hér upp og erum sammála um að þetta gangi ekki lengur, en það gerist samt ekki neitt,“ sagði Sigurður Ingi.

Varaaflstöðvarnar of gamlar

Einar K. Guðfinnsson sagði Alþingi verða að koma í veg fyrir að farið verði inn í annan vetur við sömu aðstæður í raforkumálum á Vestfjörðum og komu í ljós fyrir áramót. Benti hann á að sú stefna hafi verið mótuð að byggja upp mikið dísel- og varaflkerfi á Vestfjörðum, en það hafi nú brugðist vegna þess hve margar varaaflstöðvanna biluðu enda séu þær orðnar gamlar.

Sagði hann að það sem hægt væri að gera hraðast væri að tryggja að varaaflstöðvanet verði byggt upp bæði á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum. Eins þurfi að tryggja fjarskiptaöryggi og þótt lengri tíma geti tekið að ráðast í samgöngubætur þurfi að fara yfir þær sem fyrst út frá öryggissjónarmiðum. 

Vestfirðir 47 árum á eftir 

Guðmundur Steingrímsson sagði að grunnskilyrði fyrir atvinnulífi og mannlífi séu nú ekki fyrir hendi á Vestfjörðum. „Þetta háir atvinnuuppbyggingu. Fyrirtæki yfirgefa Vestfirði vegna þess að það er ekki raforkuöryggi. Þessi skilyrði verða að vera fyrir hendi svo sá mannauður sem þarna er geti notið sín, óveðrið dró þetta fram.“

Jónína Rós Guðmundsdóttir sagði að á 21. öld ætti að mega reikna með því að grunnstoðir sem þessar séu tryggar. „Eru Vestfirðir á sama stað í rafmagnsmálum nú og suðvesturhornið var fyrir 47 árum? Finnst okkur það eðlilegt ástand? Er það sú byggðastefna sem við viljum reka á Íslandi?“

Samhugur og þverpólitískur vilji

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra veitti andsvör og sagði umræðuna bæði gagnlega og mikilvæga. „Hamfarir eru ágætis spegill á innviði samfélags og hversu sterkt það er,“ sagði Ögmundur. Innviðir íslenskt samfélags séu sterkir en í óveðrinu á Vestfjörðum hafi afhjúpast veikleikar.

„Þessi umræða endurspeglar mikinn samhug og þverpólitískan vilja til að taka á þessum málum því við viljum ekki hafa þetta svona. Allt það sem við getum gert eigum við að gera.“

Ólína Þorvarðardóttir sagði Súðavíkurhlíðina rússneska rúllettu.
Ólína Þorvarðardóttir sagði Súðavíkurhlíðina rússneska rúllettu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ögmundur Jónasson sagði umræðurnar á Alþingi endurspegla mikinn samhug.
Ögmundur Jónasson sagði umræðurnar á Alþingi endurspegla mikinn samhug. mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert