Skotvopnaeign hefur færst í vöxt

Sölvi Tryggvason.
Sölvi Tryggvason.

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason hefur nýlokið gerð 6 fréttaskýringarþátta þar sem tekin verða fyrir alvarleg mál. „Við verðum meðal annars með þátt um undirheimana í Reykjavik, þar sem við vinnum að því að ná myndefni sem aldrei hefur náðst á Íslandi. Svo erum við með þátt um kynferðisbrot gegn börnum, þar sem við stóðum menn að verki sem héldu að þeir væru að fara að hitta barnungar stelpur. Þó að mér teljist til að ég hafi tekið meira en eitt þúsund viðtöl í sjónvarpi reyndi töluvert á fagmennskuna þegar einn þeirra samþykkti að setjast niður í viðtal. Eins var það töluvert erfiðara að „confronta“ þessa menn í raun og veru heldur en ég hafði gert mér grein fyrir,“ segir Sölvi.

Spurður um undirheimana segir hann að harkan hafi aukist þar mikið. „Neysla á sterkari efnum er meiri en áður og eins hafa útlendir aðilar náð að koma sér hér fyrir með skipulögðum hætti í fíkniefnamarkaðnum. Þetta er meðal þess sem hefur breyst.“

Sölvi segist vera forvitinn um undirheimana og það reki hann áfram. „Ég hef alltaf haft gaman af því að skoða hliðar samfélagsins sem ekki eru uppi á borðum alla jafna. Það sem hefur kannski komið mér mest á óvart við gerð þáttanna er hvað fólk virðist almennt vita lítið um ákveðnar hliðar íslensks samfélags, sem ekki eru til sýnis alla daga.“

Hafa orðið einhverjar breytingar í undirheimunum að undanförnu? „Ég get svo sem ekki fullyrt neitt um hvernig undirheimarnir þróast, en það sem hefur meðal annars breyst töluvert í undirheimunum er hvað erlendir aðilar hafa komið skipulega inn í þá á undanförnum árum og þeirri þróun verður varla snúið við. Þeir koma þá frá löndum þar sem hlutirnir eru töluvert öðruvísi en við erum vön hér og harkan er miklu meiri. Það er ákveðinn ótti við þessa aðila bæði hjá Íslendingum sem hingað til hafa talist stórir í undirheimunum og eins virðist lögreglan eiga fullt í fangi með að kortleggja hvernig þeir vinna. Annað sem hefur gerst og er þessu tengt er að skotvopnaeign hefur færst í vöxt í undirheimunum á Íslandi og því miður er margt sem bendir til að það sé bara tímaspursmál hvenær einhver verður skotinn til bana í átökum sem tengjast undirheimunum. Þannig að eftir 10 ár gætum við horft upp á það að lögreglumenn á Íslandi verði búnir skotvopnum eins og þekkist erlendis, þó að það sé auðvitað eitthvað sem enginn vill,“ segir Sölvi.

Málið verður á dagskrá á mánudagskvöldum á Skjá Einum í janúar og febrúar. HÉR er hægt að sjá brot úr Málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert