VG fari ítarlega yfir olíumálin

mbl.is

„Nú þegar það lítur út fyrir að það gæti orðið einhver alvara úr þessu er full ástæða til þess að staldra við og ræða það inni í flokknum. Þetta mál hefur lengi verið í undirbúningi, til dæmis vegna hinnar skattalegu umgjarðar. Við Vinstri-græn höfum að einhverju leyti tekið þátt í því ferli,“ segir Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri-grænna, í tilefni af útgáfu sérleyfa til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu.

„Óvissan um hvað verður úr því er mikil. Ég hef sagt að nú sé ástæða til að ræða málið og meta stöðuna. Að mínu viti ber að gæta ýtrustu varúðar í þessu máli. Við erum fiskveiðiþjóð og þá hagsmuni þarf auðvitað að meta í samhengi við þessi áform. Svo er full ástæða til þess að við setjum þau í samhengi við stefnu okkar í orkumálum. Þar höfum við horft til endurnýjanlegra orkugjafa.“

Þuríður Backman, þingmaður VG, segir að fara verði með fyllstu gát.

„Miðað við stöðu málsins tel ég að það sé í raun og veru ekki annað að gera en að horfa til mats á umhverfisáhrifum og allra þeirra reglna sem eru þekktar og strangar þegar kemur að rannsóknum og vinnslu. Nú fara fram rannsóknir og ef þær lofa góðu þarf að meta framhaldið. Þá verður af mörgum ástæðum að fara að öllu með mikilli gát. Það verður ætíð að gæta fyllstu varúðar. Náttúran verður að njóta vafans.“

Horft sé til heildarhagsmuna

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, segir ekki sjálfgefið að ákveðið verði að nýta olíuna.

„Líkt og á við um allar auðlindir á okkar forræði þurfum við að skoða hvort það samræmist heildarhagsmunum okkar að nýta hana. Það er ekki fyrirfram gefið hver niðurstaðan er, þ.e. hvort auðlindin er nýtt eða hvort hagsmunir annarrar auðlindanýtingar séu sterkari.“

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, telur hins vegar rétt að nýta olíuna ef hún finnst í vinnanlegu magni, að öllum öryggiskröfum uppfylltum. „Mér líst ákaflega vel á að Norðmenn skuli að einhverju leyti vera komnir í samstarf við okkur. Það eru þeir sem við þurfum að læra af fyrst og fremst ef það verður hægt að dæla olíu upp úr sjónum í framtíðinni og inn í efnahagslífið.“

– Ætti að hefja tilraunaboranir?

„Ef mælingar gefa góða raun, að færustu vísindamanna og reyndustu manna yfirsýn, er sjálfsagt að skoða það betur. Þetta er auðlind sem er hugsanlega þarna og ef hún er þarna er hún hugsanlega nýtanleg. Mér finnst heilbrigð skynsemi felast í því að nálgast þetta mál í rólegheitum og af skynsemi.“

– Hvað með loftslagið?

„Við þurfum líka að lifa í veröldinni. Við þurfum að átta okkur á því hvernig sú veröld er sem við lifum í og á meðan við ökum á bílum eða siglum á skipum eða fljúgum á flugförum sem eru knúin með þessu eldsneyti höfum við ekki efni á því að mínu mati að setja okkur á sérstaklega háan hest gagnvart því að vinna eldsneyti ef það er aðgengilegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert