14 ára fangelsi fyrir að stinga Skúla

Litlu munaði að Skúli Eggert Sigurz léti lífið eftir að …
Litlu munaði að Skúli Eggert Sigurz léti lífið eftir að Guðgeir Guðmundsson stakk hann ítrekað með hnífi. Morgunblaðið/Sigurgeir S.

Hæstiréttur staðfesti í dag 14 ára fangelsisdóm yfir Guðgeiri Guðmundssyni, en hann stakk Skúla Eggert Sigurz, framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar Lagastoða, hinn 5. mars á síðasta ári.

Skúli lá í marga daga milli heims og helju á gjörgæsludeild eftir árásina. Í ákærunni segir að Guðgeir hafi stungið hann ítrekað í líkamann, með þeim afleiðingum að hann hlaut fimm stungusár, þar af fjögur sem voru hvert um sig lífshættuleg þótt aðrir áverkar hefðu ekki komið til.

Guðgeir var einnig ákærður fyrir sérlega hættulega líkamsárás á Guðna Bergsson, starfsmann Lagastoða, en hann stakk hann með hnífi tvisvar í lærið.

Íhugaði að vinna manni mein

Guðgeir sagði fyrir dómi að hann hefði íhugað það nokkrum dögum fyrir atburðinn að vinna einhverjum starfsmanni lögfræðistofunnar mein. Þá hefði hann ákveðið kvöldið áður að hafa hnífinn með sér er hann færi þangað.

Guðgeir var með hníf með 13 cm löngu blaði á sér þegar hann fór til fundar við starfsmann Lagastoðar vegna skuldar sem var í innheimtu. Hann stakk Skúla ítrekað.

Í dómi Hæstaréttar segir að atlagan að Skúla hafi verið hrottaleg og lífshættuleg sem leiddi til varanlegs heilsutjóns hans og  að hending ein hafi ráðið að ekki hafi hlotist bani af. Hæstiréttur fellst á það mat héraðsdóms að Guðgeir hafi viljað að Skúli hlyti bana af atlögunni.

Tómas Guðbjartsson skurðlæknir kom fyrir héraðdsdóm og lýsti þeim áverkum sem Skúli fékk. Hann segir að áverkarnir sem Skúli fékk hafi verið djúpir, en ekki ýkja langir. Miðað við hnífinn, sem beitt var, væri ljóst að allt hnífsblaðið hefði gengið inn í líkama Skúla. Rifbein hafi kubbast í sundur beggja vegna. Væri þetta til marks um að hnífnum hafi verið beitt af afli, en talsvert átak þurfi til að rif fari í sundur. Tómas sagði að ekki hefði munað nema nokkrum sentímetrum að hnífurinn færi í hjartað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert