Sprauta sig 15-20 sinnum á dag

Vímuefni sprautað í æð.
Vímuefni sprautað í æð.

Notkun rítalíns í æð er vaxandi vandamál og nálgast að vera faraldur meðal íslenskra fíkniefnaneytenda. Gríðarleg fíkn fylgir slíkri neyslu og alvarleg geðrofseinkenni, ofskynjanir og ranghugmyndir.

Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á neyslumynstri, aukaverkunum eða upplifunum notenda rítalíns í æð, en á vísindadögum geðhjúkrunar á föstudag voru kynntar niðurstöður lýsandi þversniðsrannsóknar sem unnin var með viðtölum við notendur þar sem markmiðið var að kanna tíðni, einkenni og umfang neyslunnar.  

Niðurstöðurnar sem kynntar voru byggjast á viðtölum við 91 fíkil, 39 konur og 52 karla. Öll áttu það sameiginlegt að hafa verið í sprautuneyslu mánuð fyrir innlögn á meðferðarstofnanir. Meðalaldur þeirra var 33 ár en yngsti þátttakandi var 18 ára og sá elsti 61 árs. Niðurstöðurnar eru á forstigi því markmiðið er að ræða við 100-150 fíkla.

„Vinsælasta“ örvandi efnið á landinu

Að sögn Helenu Bragadóttur hjúkrunarfræðings er neysla rítalíns í æð ekki þekkt í sama mæli á nágrannalöndunum, þar sem frekar er um að ræða t.d. heróínneyslu, sem ekki þekkist hér. Erfitt er að áætla hve stór hópur það er sem notar vímuefni í æð á Íslandi en að sögn Helenu hafði heilbrigðisstarfsfólk sterkan grun um að rítalín væri stöðugt að verða vinsælla og mætti kalla „vinsælasta örvandi efnið á landinu í dag“. Rannsóknin staðfesti þann grun, því 85% svarenda höfðu notað rítalín í æð síðasta mánuðinn og tóku það framyfir önnur örvandi efni, s.s. kókaín eða amfetamín.

Fram kom í máli Helenu að 90% þátttakenda í rannsókninni höfðu fengið efnið á svörtum markaði en 17% hjá lækni. Flestir sem nota örvandi efni í æð byrja á amfetamíni og hafa jafnvel verið í langvarandi amfetamínneyslu áður en þeir færa sig yfir í rítalín. Rítalín uno er vinsælasta lyfið og sögðu 52% aðspurðra það vera uppáhaldslyf sitt síðustu 30 daga. Þá sögðust 60% myndu velja rítalín uno framyfir önnur lyf.

Helena sagði ástæður fyrir þessum vinsældum m.a. þær að auðvelt væri að verka rítalín uno, það kæmi í hylkjum og um leið vissi fólk líka betur hvað það væri að nota en þegar það hefði t.d. amfetamínblöndu í höndunum. Þessi fylgdi ákveðin öryggistilfinning.

Áhrifin vara stutt

Rannsakendum lék ekki síður forvitni á að vita hvað það væri sem krækti fólk svo fast í viðjum neyslunnar. Var því m.a. spurt hvað „rush“ eða fyrstu áhrif af sprautunni varaði lengi og reyndist það vera ótrúlega stutt, eða aðeins um þrjár og hálf mínúta af rítalín uno og tvær mínútur af venjulegu rítalíni.

Helena sagði þetta skýringuna á því hvers vegna fíklarnir sprautuðu sig svo oft, eða allt að 15-20 sinnum á dag, með tilheyrandi hættu á sýkingu eða sárum. Sjálf víman varir svo í um 144 mínútur af rítalín uno en 140 mínútur af rítalíni. Þegar spurt var um áhættuhegðun kom í ljós að tæpur þriðjungur hafði deilt sprautunálum með öðrum mánuð fyrir neyslu. 75% höfðu stundað kynlíf og 64% gert það án verja.

Ofskynjanir og ranghugmyndir

Gríðarlega sterk fíkn fylgir rítalínneyslu í æð og sagðist Helena hafa séð fólk sem hefði verið lengi í amfetamínneyslu en misst alveg tökin þegar það skipti yfir í rítalín í æð. Því fylgdu jafnframt alvarleg geðrofseinkenni. 

„Það er alveg gríðarleg paranoja. Maður getur séð fólk alveg gjörsamlega undirlagt af ofskynjunum og ranghugmyndum. Það góða við það er þó að ef að fólki tekst að hætta neyslu gengur þetta frekar hratt til baka miðað við til dæmis kannabisgeðrof.“

Í ljósi þess að rítalín er orðið eitt aðalefnið sem sprautufíklar á Íslandi misnota telja rannsakendur ljóst að mikilvægt sé að þekkja þá fylgikvilla sem af neyslunni hljótast. Sú þekking geti að auki gagnast öðrum löndum þar sem neysla rítalíns í æð sé að aukast á Vesturlöndum.

Rítalín er lyfsseðilsskylt lyf.
Rítalín er lyfsseðilsskylt lyf. mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Ásgrímur Hartmannsson: Og?
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert