Tilraun um þjóðarsátt bíður nýrrar ríkisstjórnar

Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ og Einar Oddur Kristjánsson, formaður VSÍ, …
Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ og Einar Oddur Kristjánsson, formaður VSÍ, undirrita þjóðarsáttarsamninga árið 1990. Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, er fyrir miðju. Það er nokkuð sem menn eru sammála um að stefna beri að - að loknum kosningum. mbl.is

Horfur voru dökkar fyrir síðustu helgi á því að samkomulag næðist milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um kjarasamninga. Svo dökkar að VR, sem er stærsta stéttarfélagið og hefur um 34% vægi innan ASÍ, boðaði til fundar stjórnar og trúnaðarmanna félagsins á sunnudagskvöld eða innan við sólarhring áður en fresturinn rennur út til að taka afstöðu til framlengingar samningsins.

Óvænt útspil SA breytti hinsvegar myndinni, en atvinnurekendur buðust til að stytta samningstímann. Þeir kjarasamningar sem eru í gildi áttu að ná út janúar á næsta ári, en í tilboði SA var tíminn styttur til áramóta og í þeim drögum sem nú eru greidd atkvæði um er samið til loka nóvember.

Samkomulag en óánægja

Allt bendir til þess að gengið verði frá samningum fyrir hádegi á morgun mánudag, en samninganefnd ASÍ kemur saman um morguninn. Þó að nefndin hafi sjálfstætt ákvörðunarvald má telja næsta víst að hún fari að vilja félagsmanna og hingað til hafa aðildarfélögin tekið afstöðu með samningum. Munar þar mestu um Flóabandalagið, en innan vébanda þess er stéttarfélagið Efling, næstfjölmennasta félagið innan ASÍ.

Mikið veltur á ákvörðun VR á í kvöld, áhrifamesta félagsins innan ASÍ, en samkvæmt heimildum hafa líkur aukist verulega á að tillögurnar verði samþykktar þar eftir að tilboð atvinnurekenda var lagt fram fyrir síðustu helgi.

En víst er um það, að óánægjan er mikil. Í skoðanakönnun innan Félags vélstjóra og málmtæknimanna voru til að mynda 57,6% á móti uppsögn samninganna, aðrir vildu segja þeim upp. Einn verkalýðsforkólfur sagði ástandið í þjóðfélaginu þannig að ábyrgðarlaust væri að semja ekki. En óánægjan væri mikil og þær raddir yrðu að heyrast.

Gagnrýni á stjórnvöld

Í drögum að yfirlýsingu ASÍ og SA sem gefin verður út þegar gengið verður frá samhliða samkomulaginu á mánudag er grunnt á því góða, en þar segir meðal annars:

„Forsenda um kaupmátt hefur staðist að mati samningsaðila en ekki forsendur um gengi og verðbólgu. Stjórnvöld hafa hvorki efnt fyrirheit um lækkun tryggingagjalds til samræmis við minnkandi atvinnuleysi né hækkun bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga. Mikilvægustu efnahagslegu forsendur kjarasamninganna um auknar fjárfestingar í atvinnulífinu hafa ekki staðist sem að stórum hluta verður að skrifa á reikning stjórnvalda.“

Stjórnvöld hafa litla aðkomu að samkomulaginu núna, enda lítið traust á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Það blasir við að eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að kosningum loknum verður að endurvinna það traust.

Ný þjóðarsátt?

Í drögum að yfirlýsingu SA og ASÍ er mælst til þess að vinna hefjist þegar að næstu kjarasamningum og látið að því að liggja að reynt verði að ná nýjum þjóðarsáttarsamningum. Um það segir að hefja þurfi „sameiginlega stefnumörkun til að tryggja vöxt og viðgang atvinnulífsins og efnahagslegan stöðugleika sem byggður verði á stöðugu gengi en það eru forsendur framfara og bættra lífskjara“.

Og samtökin munu á næstu vikum „leita samstöðu sín á milli um meginþætti atvinnustefnu sem hefur hagvöxt, fleiri og betri störf og bætt lífskjör á grunni stöðugleika að markmiði“. Niðurstaðan verður lögð fyrir stjórnmálaflokkana þannig að afstaða þeirra komi fram fyrir næstu kosningar og klykkt er út með: „Í framhaldi af kosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar verði raunhæf aðgerðaáætlun til næstu ára fullunnin.“

Um hvað er samið?

Í drögum að samkomulagi ASÍ og SA eru þrjár breytingar á gildandi kjarasamningum.

1.Gildistími styttist til 30. nóvember árið 2013.

2.Iðgjöld atvinnurekenda í mennta- og fræðslusjóði hækki í áföngum um 0,1% og skuli þeirri aðgerð lokið eigi síðar en 1. janúar 2015. Verður það útfært í næstu kjarasamningum í tengslum við átak um að innan við 10% vinnumarkaðarins verði án viðurkenndrar framhaldsmenntunar.

3. Áfram verði unnið að jöfnun lífeyrisréttinda á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í sameiginlegri nefnd alls vinnumarkaðarins.

Síðustu kjarasamningar í höfn.
Síðustu kjarasamningar í höfn. mbl.is/Ómar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert